Dagur vatnsins og Þúsaldarmarkmið SÞ – erindin af ráðstefnu Samorku

Fimmtudagurinn 22. mars var alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár höfðu Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að baráttan gegn vatnsskorti yrði þema dagsins, til samræmis við Þúsaldarmarkmið samtakanna um markvisst alþjóðlegt samstarf til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims, meðal annars með auknu aðgengi að hreinu vatni. Samorka stóð af þessu tilefni fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu á degi vatnsins í ár, í samstarfi við íslenska aðila í þróunaraðstoð og fleiri. Íslendingar búa við gott aðgengi að hreinu vatni og mikla þekkingu á nýtingu þess. Íslensk þróunaraðstoð hefur jafnframt meðal annars beinst að aðstoð við að efla aðgengi að hreinu vatni í þróunarríkjum. Á ráðstefnunni voru leiddir saman fagaðilar í vatns- og fráveitumálum hér á landi og þeir íslensku aðilar sem starfa að og hafa áhuga á þróunaraðstoð erlendis. Fjallað var um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og um mögulegt framlag Íslendinga til að auka aðgengi að hreinu vatni í þróunarlöndum. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra fjallaði um stefnu stjórnvalda í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Á ráðstefnunni afhenti Eiríkur Bogason, framkvæmdastjóri Samorku, Jónasi Þ. Þórissyni, framkvæmdastjóra Hjálparstarfs kirkjunnar, styrk sem nemur kostnaði við gerð fjögurra brunna sem sjá munu allt að fjögur þúsund manns í Afríku fyrir aðgangi að hreinu neysluvatni.

Dagskrá ráðstefnunnar má skoða hér, og erindi ræðumanna er að finna hér að neðan:

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra; ávarp

Þröstur Gylfason, Félagi Sameinuðu þjóðanna; Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna

María J. Gunnarsdóttir, Samorku; Þúsaldarmarkmið í vatns- og fráveitumálum

Þórdís Sigurðardóttir, Þróunarsamvinnustofnun Íslands; Hreint vatn í þágu heilbrigðis: Verkefni í Malaví

Gestur Hrólfsson, Rauða krossi Íslands; Vatn í stríði og friði

Anna M.Þ. Ólafsdóttir, Hjálparstarfi kirkjunnar; Vatn á ótal vegu

Kristjón Þorkelsson, Rauða krossi Íslands; Vatn og hreinlæti í neyðaraðstoð í Eþíópíu