5. mars 2007 Dagur vatnsins 22. mars nk – ráðstefna Samorku Fimmtudagurinn 22. mars er alþjóðlegur dagur vatnsins. Í ár hafa Sameinuðu þjóðirnar ákveðið að baráttan gegn vatnsskorti verði þema dagsins, til samræmis við Þúsaldarmarkmið samtakanna um markvisst alþjóðlegt samstarf til að auka lífsgæði íbúa í verst settu ríkjum heims, meðal annars með auknu aðgengi að hreinu vatni. Þekking og þróunaraðstoð Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, mun af þessu tilefni standa fyrir ráðstefnu í Orkuveituhúsinu á degi vatnsins í ár, í samstarfi við Þróunarsamvinnustofnun og félagasamtök sem vinna að þróunaraðstoð í vatnsveitu- og fráveitumálum. Íslendingar búa við gott aðgengi að hreinu vatni og mikla þekkingu á nýtingu þess. Íslensk þróunaraðstoð hefur jafnframt meðal annars beinst að aðstoð við að efla aðgengi að hreinu vatni í þróunarríkjum. Ætlun ráðstefnunnar í Orkuveituhúsinu er að leiða saman fagaðila í vatns- og fráveitumálum hér á landi og þá íslensku aðila sem starfa að og hafa áhuga á þróunaraðstoð erlendis, fjalla um Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og mögulegt framlag Íslendinga til að auka aðgengi að hreinu vatni í þróunarlöndum. Stefna stjórnvalda Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra mun fjalla um stefnu stjórnvalda í Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en jafnframt munu fjölmargir aðilar flytja erindi og ræða í pallborði um Þúsaldarmarkmiðin, um íslenska þekkingu á þessu sviði og um verkefni íslenskra aðila á sviði þróunaraðstoðar sem tengjast þema degi vatnsins. Sjá nánar á vef SÞ um dag vatnsins almennt. Sjá nánar á vef SÞ um dag vatnsins árið 2007.