Fyrirhuguð reglugerð um fráveitur og skólp

Vorið 2021 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem fela í sér ný ákvæði um stuðning við uppbyggingu á fráveitum um land allt. Þetta átak í uppbyggingu á sér fyrirmynd í verkefni sem farið var í um síðastliðin aldamót og varð grunnur að miklu uppbyggingaátaki fráveitna, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Samorka hafði lengi lagt áherslu á að þessi leið yrði endurvakin og jákvætt að Alþingi taki undir þau sjónarmið með samþykkt laganna. Sömuleiðis er jákvætt og mjög mikilvægt að á fjármálaáætlun Alþingis er gert ráð fyrir fjárveitingum í þennan stuðning sem felur í aðalatriðum í sér endurgreiðslu á ígildi virðisaukaskatts af viðkomandi framkvæmdum. Þetta mun koma litlum og meðalstórum sveitarfélögum sérstaklega til góða því flest stærri sveitarfélög hafa lokið slíkum úrbótum.

Samtökin leggja áherslu á að þetta sé forgangsverkefni í fráveitumálum á Íslandi og sveitarfélögin nái þar með að uppfylla núgildandi reglugerð þar sem komið verði á hreinsun skólps fyrir alla þéttbýlisstaði. Með þessu næst það markmið að rusl og aðrir hlutir sem berast í skólpið rati ekki út í náttúrulega viðtaka fráveitnanna sem er mjög mikilvægt umhverfis- og lýðheilsumál. Talið er að mesti einstaki umhverfisávinningur í fráveitumálum sem hægt er að ná hér á landi felist í að ljúka þessu verkefni um allt land. Áætlað er að það kosti um 15 til 20 milljarða króna.

Grettistaki hefur verið lyft í fráveitumálum hér á landi

Þær kröfur sem nú gilda byggja á því að við innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins, sem Ísland hefur ásamt öðrum ríkjum í EES undirgengist, var samþykktur fyrirvari sem lýtur að sérstöðu okkar þegar kemur að næringarefnum í skólpi og þeirri staðreynd að almennt eru viðtakar á Íslandi mjög vel til þess fallnir að taka á móti þeim án þess að það skapi hættu fyrir lífríkið.

Í því sambandi má benda á nýja skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um ástand hafsins við Ísland þar sem fram kemur að niðurstöður þessara mælinga gefi til kynna að losun næringarefna frá landi hafi ekki áhrif á styrk þeirra í Faxaflóa og að þær sýni að frárennsli hefur lítil sem engin áhrif á ástand næringarefna við stærstu þéttbýlisstaði landsins í Reykjavík og á Akureyri.

Samorka og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa lengi hvatt til þess að núgildandi reglugerð um fráveitur og skólp sé endurskoðuð og að ofangreind sjónarmið um sérstöðu Íslands séu þar áréttuð og þar með að við njótum þess að búa við fámenni og almennt mjög góða viðtaka þó vissulega séu nokkur frávik frá því þar sem fara þarf í frekari hreinsun. Með því yrði grunnurinn treystur fyrir ofangreindum framkvæmdum sem ráðast þarf í.

Nefnd um endurskoðun reglugerðar um fráveitur og skólp var skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra júlí 2013. Nefndin skilaði af sér drögum að nýrri reglugerð ásamt greinargerð í maí 2017. Sumarið 2017 voru drögin send til umsagnar. Til að knýja á að reglugerð á þessum grunni yrði gefin út sendu Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorka minnisblað til umhverfisráðherra í febrúar 2018. Sjá: Minnisblað fyrir fund með UAR 070218 (pdf)

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ekki orðið við þeim óskum heldur haft í hyggju að gefa út nýja reglugerð sem felur í sér nýjar og stórauknar kröfur til fráveitumannvirkja og að fallið verði frá þeim fyrirvara sem Ísland setti við innleiðingu EES tilskipunarinnar. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorka hafa í aðdragandanum fundað með ráðherra og sent minnisblöð þar sem lagst er gegn þessu þar sem það feli í sér mikinn kostnað fyrir fráveitur, sveitarfélög og íbúa þeirra – án þess að ná umtalsverðum árangri í umhverfismálum.

Sjá minnisblöð:

Minnisblað um tillögur um aukna fráveituhreinsun 061120 (pdf)

Minnisblað til UAR um framtíðarsýn í fráveitumálum – 171120 (pdf)

Samorka hefur í samstarfi við fráveitur víða um land áætlað að viðbótarkostnaður vegna aukinna krafna nýju reglugerðarinnar nemi tugmilljörðum króna og geti kallað á tugprósenta hækkun fráveitugjalda heimila og fyrirtækja en að umhverfisávinningurinn sé óljós. Mat samtakanna er að það sé forgangsatriði, sérlega m.t.t verndunar-, umhverfis- og lýðheilsusjónarmiða að ljúka þeim úrbótum í fráveitumálum sem nú er unnið að víða um land í takt við gildandi hreinsunarkröfur. Stórauknar kröfur með tilheyrandi viðbótar fjárfestingu og rekstrarkostnaði með óljósum umhverfislegum ávinningi sé ekki rétta leiðin til árangurs í þessum mikilvæga málaflokki.

Vindorka

Vindorka er sjálfsögð viðbót við þá endurnýjanlegu orkukosti sem nýttir eru í dag og er uppbygging hennar hér á landi tækifæri til að uppfylla þarfir þjóðarinnar fyrir græna orku á fjölbreyttari máta en nú er gert. Mikilvægt er að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðkar fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfir um leið til umhverfisins. Þannig verður Ísland áfram í forystuhlutverki í nýtingu grænnar orku. 

Í umfjöllun um vindorku í Orkustefnu Íslands til 2050 kemur eftirfarandi fram: „Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli og jarðhita, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosta fyrir raforkuvinnslu.“ 

Á Íslandi eru aðstæður mjög góðar til orkuframleiðslu úr vindi. Vegna hagstæðra vindskilyrða er kostnaður við hverja orkueiningu minni. Það getur veitt Íslandi samkeppnisforskot nú þegar vindorka verður sífellt hagkvæmari eftir því sem tækninni fleygir fram. Að auki fellur framleiðsla vindorku vel að annarri orkuframleiðslu. Þannig er hægt að framleiða rafmagn með vindmyllum þegar vindur blæs og draga úr nýtingu vatnslóna á meðan og nýta lónin þegar ekki blæs. Virkur heildsölumarkaður með rafmagn sem er í örri þróun hér á landi mun gegn lykilhlutverki við að ná jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar með tilkomu nýrra og óstöðugri orkukosta eins og vinds og birtu. Með því að nýta vindorku á sjálfbæran hátt verður áfram hægt að stuðla að samkeppnishæfni Íslands til framtíðar. 

Vindorka hefur þá sérstöðu umfram vatnsafla og jarðvarma að hægt er að reisa vindmyllur og vindorkuver nánast hvar sem er út frá tæknilegum sjónarmiðum. Þau umhverfisáhrif sem skapast af sjónmengun eru með öllu afturkræf og eingöngu bundinn við þann tíma sem nýtingin stendur yfir.  

Samorka hefur lagt áherslu á að regluverk um orkunýtingu og þar með talið vindorkunýtingu sé skilvirkt og í því skyni kallað eftir því að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) verði lögð af. Sé horft til vindorkumannvirkja sérstaklega eru engin sjónarmið sem réttlæta að uppbygging í vindorku fari fram í gegnum gríðarlega umfangsmikla miðstýringu með aðkomu Alþingis, frekar en gildir um önnur mannvirki eða stóriðju. Þannig eru umhverfisáhrif vindmylla hvorki meiri, né varanlegri en t.d. af uppbyggingu í iðnaði, fiskeldi eða ferðamannaiðnaði. Hvers vegna sérreglur þurfi að gilda um orkunýtingu er illskiljanlegt.  

Skilvirkara regluverk mundi einnig auðvelda nýjum og minni framleiðendum að koma inn á markaðinn, sem stuðlar að aukinni samkeppni. Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi.  

Að mati Samorku er eðlilegt að vindorkukostir séu afgreiddir í gegnum skipulagsferla sveitarfélaga. Í þeirri vinnu er aðkoma almennings og hagsmunaaðila tryggð og með mati á umhverfisáhrifum er tryggt að neikvæð umhverfisáhrif séu lágmörkuð og framkvæmdin í góðu samræmi við umhverfissjónarmið.  

Samorka tekur undir eftirfarandi áherslur í orkustefnu fyrir Ísland: „Nauðsynlegt er að hafa öfluga stjórnsýslu sem getur uppfyllt sínar skyldur með skilvirkum hætti og styðji þannig við þarfir samfélagsins er varða orkumál. Ferli leyfisveitinga þarf að tryggja að aðilar uppfylli kröfur um leið og það er einfalt og skilvirkt þannig að tímafrestir séu hæfilegir í samanburði við það sem best gerist í þeim löndum sem við miðum okkur gjarnan við“. Að mati Samorku stefnir ekki í að þessi markmið orkustefnu um einfalt og skilvirkt regluverk verði uppfyllt. 

Meira efni Samorku um vindorku:  

Vindorka: Þrautreynd og umhverfisvæn grein eftir Lovísu Árnadóttur á visir.is, 4. september 2024 

Spurt og svarað um vindorku  

Hlaðvarpsþáttur Samorku um vindorku

Rammaáætlun

Upphafleg markmið laga um verndar- og orkunýtingaráætlun („rammaáætlun“) voru að sætta mismunandi sjónarmið með því að leggja faglegt mat á hvaða orkukosti landsins eigi að nýta til að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir orku og verðmætasköpun og hvaða orkukosti eigi að fara í vernd. Samorka telur ljóst að markmiðin hafi ekki náðst og telur farsælast að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð af.  

Í lögum um rammaáætlun kemur fram að markmið þeirra sé „að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“. Enn fremur kemur fram að markmið laganna er að „langtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi og þjóni þannig markmiðum um sjálfbæra þróun. Það eru því ekki eingöngu hagsmunir núlifandi kynslóðar sem skulu hafðir að leiðarljósi heldur ekki síður hagsmunir komandi kynslóða af sjálfbærri og skynsamlegri nýtingu þeirra auðlinda sem þarf til orkuvinnslu.“ Þessi markmið hafa ekki náðst. 

Samtökin hafa bent á að lagaskilyrði um verndar- og orkunýtingaráætlun hafi ekki verið uppfyllt, því faghópar sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagslega þætti luku ekki störfum og vantaði þær forsendur inn í þá niðurstöðu verkefnastjórnar. Þar með er alvarlegt ójafnvægi milli mats á orkukostum hvað varðar verndargildi náttúru samanborið við jákvæða efnahags- og samfélagslega þætti vegna nýtingar í þriðja áfanga rammaáætlunar. Ýmsir aðrir faglegir ágallar eru á ferlinu. Þá hefur afmörkun landsvæða friðunar í kjölfar síðustu rammaáætlunar valdið réttaróvissu, sem hugsanlega skapar ríkinu skaðabótaskyldu. Á vormánuðum 2024 felldi Hæstiréttur úr gildi friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum fyrir orkuvinnslu og má leiða að því líkum að aðrar friðlýsingar á grundvelli rammaáætlunar hafi takmarkað gildi.  

Rammaáætlun á rætur sínar að rekja til ársins 1999. Umgjörð og staða orkumála hér á landi sem erlendis er allt önnur en hún var þegar vinna hófst við 1. áfanga rammaáætlunar árið 1999 og grundvallarbreytingar hafa orðið í áherslum Íslands og annarra ríkja í loftslagsmálum frá því að rammaáætlun var færð í núverandi horf með lögum nr. 48/2011. Löggjöf, markmið hennar og framkvæmd verður á hverjum tíma að skoða í ljósi annarrar samfélagsþróunar. 

Í orkustefnu til ársins 2050 kemur fram að eitt af meginmarkmiðum orkustefnu er að tryggja jafnvægi framboðs og eftirspurnar á orkumarkaði og þar með orkuöryggi. Framboð orku þarf að geta annað vaxandi eftirspurn vegna orkuskipta, tækniþróunar og fólksfjölgunar, sem og eðlilegrar þróunar fjölbreyttrar starfsemi um land allt, enda er aðgengi að orku grundvöllur að verðmætasköpun í atvinnulífinu og forsenda jákvæðrar byggðaþróunar og búsetuskilyrða. Þannig hafa ýmsar breytingar orðið í samfélaginu sem kalla á aukna uppbyggingu í grænni orku, frá því sem var um síðustu aldamót.  

Á þeim 13 árum sem liðin eru frá því að núgildandi lög voru sett hefur ein ný virkjun sem komist hefur í nýtingarflokk verið gangsett. Af því má ráða að rammaáætlun flækir og lengir leyfisveitingar- og framkvæmdaferli sem nú þegar er langt og strangt og háð fjölda umsókna og leyfisveitinga áður en virkjun kemst í gagnið. 

Eitt af meginmarkmiðum rammaáætlunar var að ná sátt um orkuframkvæmdir og nýtingu og vernd landsins. Fyrstu árin eftir lögfestingu rammaáætlunar voru vonir bundnar við að sátt næðist um framkvæmd hennar og markmið, en hafa ber í huga að á sama tíma var staðan í orkubúskap þjóðarinnar allt önnur en hún er í dag. Orkuskipti voru ekki komin á dagskrá og einfaldlega ekki til umræðu á þeim tíma. Þá liggur fyrir að í því mati á orkukostum sem fram fer hjá verkefnisstjórn og faghópum hefur hingað til ekki farið fram neitt mat á orkuþörf þjóðarinnar né hvernig henni skuli mætt.   

Meira efni um rammaáætlun:

Rætt um rammann, hlaðvarpsþáttur Samorku. Gestir: Harpa Pétursdóttir forstöðukona nýrra orkukosta hjá Orkuveitunni og Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun.