Fyrirhuguð reglugerð um fráveitur og skólp

Vorið 2021 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna sem fela í sér ný ákvæði um stuðning við uppbyggingu á fráveitum um land allt. Þetta átak í uppbyggingu á sér fyrirmynd í verkefni sem farið var í um síðastliðin aldamót og varð grunnur að miklu uppbyggingaátaki fráveitna, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Samorka hafði lengi lagt áherslu á að þessi leið yrði endurvakin og jákvætt að Alþingi taki undir þau sjónarmið með samþykkt laganna. Sömuleiðis er jákvætt og mjög mikilvægt að á fjármálaáætlun Alþingis er gert ráð fyrir fjárveitingum í þennan stuðning sem felur í aðalatriðum í sér endurgreiðslu á ígildi virðisaukaskatts af viðkomandi framkvæmdum. Þetta mun koma litlum og meðalstórum sveitarfélögum sérstaklega til góða því flest stærri sveitarfélög hafa lokið slíkum úrbótum.

Samtökin leggja áherslu á að þetta sé forgangsverkefni í fráveitumálum á Íslandi og sveitarfélögin nái þar með að uppfylla núgildandi reglugerð þar sem komið verði á hreinsun skólps fyrir alla þéttbýlisstaði. Með þessu næst það markmið að rusl og aðrir hlutir sem berast í skólpið rati ekki út í náttúrulega viðtaka fráveitnanna sem er mjög mikilvægt umhverfis- og lýðheilsumál. Talið er að mesti einstaki umhverfisávinningur í fráveitumálum sem hægt er að ná hér á landi felist í að ljúka þessu verkefni um allt land. Áætlað er að það kosti um 15 til 20 milljarða króna.

Grettistaki hefur verið lyft í fráveitumálum hér á landi

Þær kröfur sem nú gilda byggja á því að við innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins, sem Ísland hefur ásamt öðrum ríkjum í EES undirgengist, var samþykktur fyrirvari sem lýtur að sérstöðu okkar þegar kemur að næringarefnum í skólpi og þeirri staðreynd að almennt eru viðtakar á Íslandi mjög vel til þess fallnir að taka á móti þeim án þess að það skapi hættu fyrir lífríkið.

Í því sambandi má benda á nýja skýrslu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins um ástand hafsins við Ísland þar sem fram kemur að niðurstöður þessara mælinga gefi til kynna að losun næringarefna frá landi hafi ekki áhrif á styrk þeirra í Faxaflóa og að þær sýni að frárennsli hefur lítil sem engin áhrif á ástand næringarefna við stærstu þéttbýlisstaði landsins í Reykjavík og á Akureyri.

Samorka og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa lengi hvatt til þess að núgildandi reglugerð um fráveitur og skólp sé endurskoðuð og að ofangreind sjónarmið um sérstöðu Íslands séu þar áréttuð og þar með að við njótum þess að búa við fámenni og almennt mjög góða viðtaka þó vissulega séu nokkur frávik frá því þar sem fara þarf í frekari hreinsun. Með því yrði grunnurinn treystur fyrir ofangreindum framkvæmdum sem ráðast þarf í.

Nefnd um endurskoðun reglugerðar um fráveitur og skólp var skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra júlí 2013. Nefndin skilaði af sér drögum að nýrri reglugerð ásamt greinargerð í maí 2017. Sumarið 2017 voru drögin send til umsagnar. Til að knýja á að reglugerð á þessum grunni yrði gefin út sendu Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorka minnisblað til umhverfisráðherra í febrúar 2018. Sjá: Minnisblað fyrir fund með UAR 070218 (pdf)

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur ekki orðið við þeim óskum heldur haft í hyggju að gefa út nýja reglugerð sem felur í sér nýjar og stórauknar kröfur til fráveitumannvirkja og að fallið verði frá þeim fyrirvara sem Ísland setti við innleiðingu EES tilskipunarinnar. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorka hafa í aðdragandanum fundað með ráðherra og sent minnisblöð þar sem lagst er gegn þessu þar sem það feli í sér mikinn kostnað fyrir fráveitur, sveitarfélög og íbúa þeirra – án þess að ná umtalsverðum árangri í umhverfismálum.

Sjá minnisblöð:

Minnisblað um tillögur um aukna fráveituhreinsun 061120 (pdf)

Minnisblað til UAR um framtíðarsýn í fráveitumálum – 171120 (pdf)

Samorka hefur í samstarfi við fráveitur víða um land áætlað að viðbótarkostnaður vegna aukinna krafna nýju reglugerðarinnar nemi tugmilljörðum króna og geti kallað á tugprósenta hækkun fráveitugjalda heimila og fyrirtækja en að umhverfisávinningurinn sé óljós. Mat samtakanna er að það sé forgangsatriði, sérlega m.t.t verndunar-, umhverfis- og lýðheilsusjónarmiða að ljúka þeim úrbótum í fráveitumálum sem nú er unnið að víða um land í takt við gildandi hreinsunarkröfur. Stórauknar kröfur með tilheyrandi viðbótar fjárfestingu og rekstrarkostnaði með óljósum umhverfislegum ávinningi sé ekki rétta leiðin til árangurs í þessum mikilvæga málaflokki.