Rammaáætlun

Upphafleg markmið laga um rammaáætlun voru að sætta mismunandi sjónarmið með því að leggja faglegt mat á hvaða orkukosti landsins eigi að nýta til að uppfylla þarfir samfélagsins fyrir orku og verðmætasköpun og hvaða orkukosti eigi að fara í vernd. Samorka telur ljóst að markmiðin hafi ekki náðst og kallar eftir heildarendurskoðun á ferlinu og að faglegir ágallar verði lagfærðir.

Í lögum um rammaáætlun kemur fram að markmið þeirra sé „að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi“. Ennfremur kemur fram að markmið laganna er að „langtímahagsmunir séu hafðir að leiðarljósi og þjóni þannig markmiðum um sjálfbæra þróun. Það eru því ekki eingöngu hagsmunir núlifandi kynslóðar sem skulu hafðir að leiðarljósi heldur ekki síður hagsmunir komandi kynslóða af sjálfbærri og skynsamlegri nýtingu þeirra auðlinda sem þarf til orkuvinnslu.“ Þessi markmið hafa ekki náðst.

Samtökin hafa bent á að lagaskilyrði um verndar- og orkunýtingaráætlun hafi ekki verið uppfyllt, því faghópar sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagslega þætti luku ekki störfum og vantaði þær forsendur inn í þá niðurstöðu verkefnastjórnar sem nú liggur fyrir. Þar með er alvarlegt ójafnvægi milli mats á orkukostum hvað varðar verndargildi náttúru samanborið við jákvæða efnahags- og samfélagslega þætti vegna nýtingar í þriðja áfanga rammaáætlunar. Ýmsir aðrir faglegir ágallar eru á ferlinu sem þarf að laga. Þá hefur afmörkun landsvæða friðunar í kjölfar síðustu rammaáætlunar valdið réttaróvissu, sem hugsanlega skapar ríkinu skaðabótaskyldu.

Rammaáætlun fjallar um tiltekna orkukosti á samkeppnismarkaði orkufyrirtækja og þess vegna getur Samorka ekki tekið afstöðu til afgreiðslu Ramma 3. Það er hlutverk Alþingis að taka afstöðu til og meta ráðgefandi tillögu verkefnisstjórnar rammaáætlunar og tryggja að orkukostir hafi hlotið þá meðferð sem lögin segja til um. Í ljósi þeirra alvarlegu ágalla sem eru á verklagi verkefnastjórnar og faghópanna, leggur Samorka til að fram fari heildarendurskoðun á ferlinu, svo það þjóni í reynd markmiðum laganna og leiði til þess að þjóðin geti treyst því að ákvarðanir um nýtingu eða vernd orkuauðlinda séu teknar með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Samorka kallar eftir samráði við endurskoðun rammaáætlunarferlisins eða annars fyrirkomulags sem komið yrði á, og er tilbúin til að taka þátt í slíkri vinnu.