Ársfundur SvensktVatten 2014

Ársfundur SvensktVatten, sænsku vatns- og fráveitusamtakanna, árið 2014 fer fram 13.-14. maí næstkomandi í borginni Jönköping.

Dagskrá fundarins í ár einkennist af því að kosningaár er í Svíþjóð og því verða tekin fyrir ýmis mál sem tengast aðkomu stjórnvalda að vatns- og fráveitumálum.

Frekari upplýsingar um fundinn og skráningu má finna á heimasíðu samtakanna.

Búðarhálsstöð gangsett

Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Íslendinga, hefur verið gangsett. Stöðin er staðsett á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og verður rekin samhliða öðrum aflstöðvum Landsvirkjunar á svæðinu. Uppsett afl hennar er 95 MW og hún framleiðir um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Orka náttúrunnar setur upp tíu hraðhleðslustöðvar

Þriðjudaginn 11. mars mun Orka náttúrunnar taka í notkun fyrstu hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hér á landi, við höfuðstöðvar fyrirtækisins að Bæjarhálsi 1. Stöðin er sú fyrsta af tíu sem komið verður upp á næstu mánuðum víðsvegar um sunnan- og vestanvert landið og er átakið unnið í samstarfi við B&L og Nissan í Evrópu. Jafnframt heldur ON málþing í tengslum við opnunina sem hægt er að skrá sig á hér á vef fyrirtækisins.

Framúrskarandi árangur Blöndustöðvar í sjálfbærri nýtingu vatnsafls

Nýleg úttekt á rekstri Blöndustöðvar Landsvirkjunar, sem unnin var samkvæmt alþjóðlegum matslykli um sjálfbærni vatnsaflsvirkjana (Hydropower Sustainability Assessment Protocol), leiddi í ljós að Blöndustöð hefur náð framúrskarandi árangri hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls. Á mörgum sviðum þykja starfsvenjur Blöndustöðvar þær bestu sem fyrirfinnast. Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.

Vísindadagur OR og ON

Vísindadagur Orkuveitu Reykjavíkur og Orku Náttúrunnar verður haldinn á Bæjarhálsi 1 föstudaginn 14. mars. Kynnt verða áhugaverð rannsóknar­verkefni sem unnin eru í samvinnu við Orkuveituna og Orku náttúrunnar. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Fyrir skráningu og nánari upplýsingar, sjá á vef Orkuveitunnar

Iðnaðarráðherra fundar með orkumálaráðherra Bretlands

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mun í næsta mánuði funda með orkumálaráðherra Bretlands, m.a. til að ræða um hugsanlegan raforkustreng milli Íslands og Bretlands. Þetta kom fram í ávarpi ráðherra á aðalfundi Samorku. Ráðherrann tók undir með ályktun aðalfundar Samorku og sagði mikilvægt að skoða forsendur þessa verkefnis vel og vandlega. Hún sagði vinnu þegar hafna í ráðuneytinu á grundvelli álits ráðgjafarhóps og nefndarálits atvinnuveganefndar Alþingis og tók fram að hún teldi rétt að forræði málsins færðist algerlega til stjórnvalda.

Ragnheiður Elín tók jafnframt undir með ályktun aðalfundar Samorku um mikilvægi þess að sátt næðist um rammaáætlun. Sagðist hún ekki hafa farið leynt með að henni þætti nauðsynlegt að endurskoða nokkur atriði þeirrar rammaáætlunar sem samþykkt var á liðnu ári, á skjön við faglega vinnu sem unnin var fyrir meðferð málsins á Alþingi.

Loks fjallaði ráðherrann um mikilvægi uppbyggingar flutningskerfis raforku á Íslandi og í því sambandi m.a. um væntanlegt frumvarp til breytinga á raforkulögum þar sem efla á formlega stöðu kerfisáætlunar Landsnets.

Erindi ráðherra er væntanlegt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Sjávarþorp með frárennsliskröfur stórborga í miðri Evrópu

Ísland er mjög dreifbýlt land og víðast hvar er viðtaki frárennslis mjög öflugur miðað við byggðina. Hlutfallslega er mikið vatn í frárennsli hérlendis, sem stafar af mikilli vatnsnotkun auk húshitunar með jarðhitavatni. Mikilvægt er að bæta mat á viðtökum og ákvæðum um þynningarsvæði. Ef viðtakinn (yfirleitt sjórinn) ræður við að taka við öllu lífræna efninu, til hvers þá að leggja í mikinn kostnað með tilheyrandi mengun til að fanga, flytja og urða hluta þess?

Þetta er meðal þess sem fram kom í erindi Reynis Sævarssonar, fagstjóra vatns- og fráveitna hjá Eflu verkfræðistofu, á aðalfundi Samorku. Reynir segir jafnframt mikilvægt að tryggja að regluverkið loki ekki á grænar lausnir í skólphreinsun, sem mikið eru notaðar í nágrannalöndum okkar en nánast ekkert hérlendis. Þá sé óraunhæft að gera sömu kröfur til sjávarþorpa hérlendis og gerðar séu til borga í miðri Evrópu, t.d. hvað varðar gerla og lífræna mengun.

Sjá erindi (glærur) Reynis.

Orkugeirinn grundvöllur þekkingarstarfa

Um helming allra 900 ársverka á íslenskum verkfræðistofum og ráðgjafarfyrirtækjum má rekja til orkutengdra verkefna. Þar af eru tæp 150 ársverk í erlendum verkefnum. Alls starfa um eitt þúsund verkfræðingar, tæknifræðingar og raunvísindafólk hjá orkufyrirtækjum, veitufyrirtækjum og í orkutengdum greinum hérlendis. Þá er fróðlegt að sjá hvernig fjöldi nemenda í verk- og tæknifræði hefur þróast algjörlega í takti við aukna raforkuframleiðslu í landinu. Þetta kom fram í erindi Guðrúnar Sævarsdóttur, forseta verk- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, á aðalfundi Samorku.

Guðrún segir þekkingarstörf ekki verða til í tómarúmi. Uppbygging þekkingar kringum grunnatvinnuvegi leiði af sér tækifæri á öðrum sviðum og orkugeirinn hafi byggt upp sterkan þekkingargrunn á Íslandi.

Sjá erindi (glærur) Guðrúnar.