1. október 2018 Orkuveita Reykjavíkur fær 2 milljarða styrk Hellisheiðarvirkjun Orkuveita Reykjavíkur (OR) ásamt samstarfsaðilum hefur hlotið ríflega tveggja milljarða króna styrk úr Horizon 2020 Rannsókna- og nýsköpunaráætlun ESB. Styrkurinn er til verkefnisins GECO, sem miðar að sporlausri nýtingu jarðhita. OR leiðir þetta samstarfsverkefni 18 fyrirtækja og stofnana víðs vegar að úr Evrópu. Markmið GECO (Geothermal Emission Control) er að þróa jarðhitavirkjanir með sem allra minnsta losun koltvíoxíðs (CO2) og brennisteinsvetnis (H2S) byggða á CarbFix verkefninu sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun. Gróðurhúsalofti breytt í grjót CarbFix-aðferðin, stundum nefnd Gas í grjót, felst í að leysa koltvíoxíð og brennisteinsvetni upp í vatni og dæla þeim djúpt niður í basaltberglögin við Hellisheiðarvirkjun. Þar losna efni úr basaltinu sem bindast lofttegundunum og mynda stöðugar steintegundir, t.d. silfurberg og glópagull, innan tveggja ára. CO2 og H2S er þannig steinrunnið í berggrunninum til frambúðar. Þessi aðferð er ódýrari en hefðbundnar hreinsunaraðferðir á þessu jarðhitalofti og leiðir til langtímabindingar þess. Með GECO verkefninu verður CarbFix aðferðin þróuð enn frekar og henni beitt víðar. Auk Íslands verður hún prófuð á Ítalíu, í Tyrklandi og í Þýskalandi. Þá verða einnig þróaðar aðferðir sem stuðla að hagnýtingu jarðhitalofttegunda. Unnið verður að enn umhverfisvænni og sparneytnari aðferðum við hreinsun koltvíoxíðs með hagnýtingu í huga og þannig auka tekjumöguleika við jarðhitanýtinguna.
24. september 2018 Hverjar eru helstu áskoranir Íslands í orkumálum? Einari Kiesel framkvæmdastjóri Evrópudeildar WEC Niðurstöður skýrslu Alþjóða orkuráðsins, World Energy Issue Monitor, voru kynntar á sameiginlegum fundi Orkustofnunar og Samorku. Skýrslan á að gefa vísbendingar um hvaða málefni séu stjórnendum orku- og veitufyrirtækja í heiminum efst í huga og skilgreinir helstu breytingar, áskoranir og óvissu á sviði orkumála og tengdum greinum. Ísland var með í skýrslunni í annað sinn. Í skýrslunni er fjallað um fjölmarga þætti s.s. efnahagsmál, tækni, endurnýjanlega orku, hrávöruverð, gjaldmiðla, loftlagsmál, orkuflutninga, orkunýtni o.fl. Einari Kiesel, framkvæmdastjóri Evrópudeildar World Energy Council, kynnti niðurstöður skýrslunnar, auk þess sem Baldur Pétursson, verkefnisstjóri fjölþjóðlegra verkefna hjá Orkustofnun og Sigurlilja Albertsdóttir, hagfræðingur Samorku, rýndu frekar í niðurstöður hjá íslenskum forstjórum og framkvæmdastjórum orku- og veitufyrirtækja. Þar kom fram að helstu áskoranir þeirra væru gengi íslensku krónunnar, netöryggi og möguleikar á öfgafullu veðurfari. Sigurlilja Albertsdóttir, hagfræðingur Samorku Upptöku af fundinum má nálgast á vef Orkustofnunar. Þá fjallaði Spegillinn á RÚV um niðurstöður skýrslunnar.
19. september 2018 Ný íslensk rannsókn um hleðslu rafbíla Tvö hundruð eigendum raf- og tengiltvinnbíla hefur verið boðin þátttaka í rannsókn, sem kanna á hvernig þeir hlaða bílana sína. Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita mikilvægar upplýsingar fyrir áframhaldandi orkuskipti í samgöngum hér á landi. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stendur fyrir rannsókninni sem stendur yfir í 12 mánuði og er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Markmið hennar er að afla upplýsinga um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum. Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku „Raungögn um hleðsluhegðun eru nauðsynleg til þess að hægt sé að spá fyrir um framtíðarnotkun, álagspunkta og stuðla að því að orku- og veitufyrirtæki verði í stakk búin til þess að mæta orkuskiptunum“, segir Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku. „Og auðvitað til að veita rafbílaeigendum áfram góða þjónustu“. Raf- og tengiltvinnbílarnir í rannsókninni eru af mismunandi tegundum, ýmist í eigu einstaklinga eða fyrirtækja, eru staðsettir á mismunandi svæðum á landinu og eru hlaðnir ýmist við einbýli, fjölbýli eða vinnustað. Með þessum hætti fást niðurstöður um hvort þarfir þessara hópa séu ólíkar og kröfur til uppbyggingar innviða þar með. Hlutfall raf- og tengiltvinnbíla af nýskráðum bílum er næsthæst hér á Norðurlöndunum, enda sjá fleiri og fleiri sér hag í því að spara bensínkaup og minnka um leið útblástur gróðurhúsalofttegunda. Þá á uppbygging hleðslustöðva um landið síðustu árin eflaust stóran þátt í því að rafbílar eru orðinn raunhæfur kostur í samgöngum. Páll segir þessa uppbyggingu hafa verið leidda af orku- og veitufyrirtækjum landsins og rannsóknin sé næsta skref í því verkefni. „Orku- og veitufyrirtæki vilja áfram vera í fararbroddi þegar kemur að þessu mikilvæga samfélagslega verkefni; að skipta út olíunni á bílunum okkar yfir í græna, hagkvæma orkugjafa“. Allar nánari upplýsingar um rannsóknina má finna á www.samorka.is/hledslurannsokn Öll meðferð persónuupplýsinga í rannsókninni er í samræmi við persónuverndarlög og verður ekki hægt að rekja niðurstöður til einstakra þátttakenda.
5. september 2018 Húshitun ódýrust hér af Norðurlöndum Mikill munur er á kostnaði vegna húshitunar fyrir íbúa í höfuðborgum Norðurlandanna. Íbúi í Kaupmannahöfn þarf að borga 314 þúsund krónur á ári, í Stokkhólmi rúmlega 300 þús krónur, í Osló 264 þúsund krónur og í Helsinki 246 þúsund krónur á ári. Í Reykjavík er árlegur kostnaður hins vegar aðeins 90 þúsund krónur. Að meðaltali er kostnaðurinn 243.521 kr. á ári fyrir íbúa í höfuðborg á Norðurlöndum. Í samanburðinum er stuðst er við nýjar tölur frá stærstu veitufyrirtækjum í hverri höfuðborg á Norðurlöndum. Langflest heimili á Íslandi eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykjavík er þetta hlutfall 100%. Á hinum Norðurlöndum er að mestu notast við raforku eða jarðefnaeldsneyti við upphitun húsa. Á hverju ári sparar húshitun með jarðhita og framleiðslu rafmagns með endurnýjanlegri orku mikla losun koltvísýrings út í andrúmsloftið, eða um 19 milljónir tonna árlega. Til samanburðar höfum við skuldbundið okkur til að minnka losun koltvísýrings um eina milljón tonna fyrir árið 2030 samkvæmt Parísarsamningnum. Auk þess að vera umhverfisvænn og ódýr kostur sparar jarðhiti til húshitunar þjóðarbúinu tugi milljarða árlega í hreinum gjaldeyri. Hér má sjá samanburðinn þegar kostnaður hefur verið brotinn niður. Uppfærð 6. sept: Lagfærðar tölur um að húshitun spari árlega um 19 milljónir tonna, rétt er að húshitun og framleiðsla rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum sparar árlega 19 milljónir tonna.
8. ágúst 2018 Opinn fundur um áhrif þriðja orkupakkans Lagadeild Háskólans í Reykjavík stendur fyrir fundi mánudaginn 13. ágúst um orkumál og EES samninginn með þáttöku fyrirlesara frá Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði (ACER), lagadeild háskólans í Osló, Samorku og Orkustofnun. Fundurinn fer fram í Háskólanum í Reykjavík, stofu M209. Orkumál og EES-samningurinn. Hver eru áhrif þriðja orkupakkans? Umræða hefur skapast hér á landi og í Noregi um áhrif þriðja orkupakka Evrópusamandsins (ESB) á hagsmuni ríkjanna og valdheimildir á orkusviðinu. Umræðan hefur einkum snúist um hvort samþykkt hans feli í sér framsal valdheimilda til stofnunar ESB sem hefur umsjón með samstarfi eftirlitsstofnana ríkjanna á orkumarkaði (ACER). Þingið í Noregi samþykkti orkupakkann síðastliðið vor en hann hefur ekki komið til umræðu á Alþingi. Á fundinum verður fjallað um ýmis þau álitamál sem snert hefur verið á í umræðunni hér á landi og í Noregi, þ.á m. um hlutverk og valdheimildir ACER og áhrif innleiðingar þriðja orkupakkans á stjórnun orkulinda. 9:00-9:10 Setning. Fundarstjóri, Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar HR. 9:10-9:45 ACER‘s Functions and Responsibilities. Alberto Pototschnig, forstjóri ACER. 9:45-10:10 Meginefni orkulöggjafar ESB og möguleg áhrif þriðja orkupakkans hér á landi. Kristín Haraldsdóttir, lektor við lagadeild HR. 10:10-10:40 Implementation of the third Energy Package in Norway, the main challenges. Henrik Bjørnebye, prófessor við lagadeild Háskólans í Osló. 10:40 – 11:00 Kaffihlé. 11:00 – 11:20 Áhrif þriðja orkupakkans á heimili og fyrirtæki í landinu. Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur Samorku. 11:20 – 11:40 Áhrif þriðja orkupakkans á hlutverk og starfsemi Orkustofnunar. Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri. 11:40-12:00 Fyrirspurnir og umræður
20. júlí 2018 Metnotkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu Notkunin á heitu vatni til húshitunar á fyrstu sex mánuðunum hefur verið 10% meiri en að meðaltali, sé litið til næstu fjögurra ára á undan. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Veitum. Dagana 16. – 23. janúar fóru að jafnaði 15.161 rúmmetrar á klukkustund í gegnum hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu sem er mesta vikunotkunin sem sést hefur. Met í sólarhringsnotkun og notkun á klukkustund voru einnig slegin í janúar. Ástæða þessarar aukningar á notkun á heitu vatni ætti ekki að koma íbúum á höfuðborgarsvæðinu á óvart. Kuldatíð í janúar og febrúar og einstaklega rysjótt tíð í maí og júní á suðvesturhorni landsins hefur ekki farið fram hjá neinum. Þess utan hefur notkun á heitu vatni aukist mikið á síðustu árum, eða um tæplega 20% á síðustu fimm árum.
19. júlí 2018 Þriðji orkupakki ESB – grein eftir Rögnu Árnadóttur Ragna Árnadóttir, lögfræðingur og aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, ritaði grein í vefútgáfu Úlfljóts, tímarits lögfræðinema, um þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Í greininni fer Ragna ítarlega yfir aðdragandann að pakkanum, markmiðið með honum og áhrif innleiðingar á Íslandi. Hún segir hann rökrétt framhald af fyrri tveimur orkupökkum ESB, þar sem lögð var áhersla á innri markað til að auka samkeppni og tækifæri til fjárfestinga. Sá þriðji innihaldi þó nýmæli sem lúti að auknu eftirliti með rafmagnsmörkuðum og samhæfingu þess. Greinina má lesa á heimasíðu Úlfljóts.
28. júní 2018 Vetnisbíll á vatnsverndarsvæði Veitna Veitur hafa tekið í notkun nýjan vetnisbíl sem ætlaður er til notkunar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk. Bíllinn, sem er af gerðinni Hyundai ix35, mun auka öryggið í kringum vatnsból Veitna umtalsvert en hingað til hefur umsjónarmaður vatnsverndarsvæðisins ekið um á lekavottuðum díselbíl. Vetni er frumefni og þegar það binst súrefni myndar það vatn. Útblástur bílsins er því hreint vatn og kolefnisspor eldsneytisins ekkert. Helsta hættan sem að vatnsbólunum stafar er mengun, t.d. af rusli, olíu, skólpi eða öðrum efnum. Þau geta komist í gegnum jarðlögin og í vatnið með miklum grunnvatnsstraumum sem renna neðanjarðar inn í vatnsbólin í Heiðmörk. Mengunarvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir eru nauðsynlegar til að tryggja neytendum á veitusvæði okkar hreint og tært vatn um alla framtíð. Kaupin á vetnisbílnum eru liður í því. Þrátt fyrir að ganga fyrir vetni er bíllinn sem Veitur taka nú í notkun lekavottaður því í honum eru aðrir vökvar sem ekki mega fara í jörð á vatnsverndarsvæði, eins og frostlögur, rúðupiss og smurolía. En hættan á að frá honum leki jarðefnaeldsneyti i jörð er ekki fyrir hendi.
30. maí 2018 Frestur til að skrá sig á NDWA að renna út Norræna drykkjarvatnsráðstefnan 2018 verður haldin dagana 11. – 13. júní í Osló, Noregi. Frestur til að skrá sig rennur út föstudaginn 1. júní. Skráning á ráðstefnuna. Metnaðarfull dagskrá verður í boði og fjallað um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira. Nálgast má upplýsingar um dagskrána og ráðstefnuna í heild á heimasíðu hennar. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni.
29. maí 2018 Vel heppnaður Veitudagur Veitudagur Samorku var haldinn í fyrsta sinn á Fagþingi hita-, vatns- og fráveitna á Hótel Örk í Hveragerði dagana 23.- 25. maí. Dagurinn var sérstaklega tileinkaður framkvæmda- og tæknifólki í aðildarfélögum Samorku. Fundargestum var boðið upp á áhugaverða fyrirlestra, þ.m.t. um öryggismál, en svo var skipt í lið og keppt í hinum ýmsu greinum. Í mælaþrautinni áttu keppendur að „koma fyrir vatnsmæli í húsi“ og líkt var eftir mjög erfiðum aðstæðum sem geta komið upp þegar starfsmenn veitufyrirtækja þurfa að koma upp mælum. Í suðukeppninni var heimæð komið fyrir á dreifilögn undir þrýstingi og tengja þurfti svo heimlögnina við ímyndaða tengigrind húsveitu. Í suðukeppninni var keppt í suðu á lagnaefni, í röraboltanum átti að kasta bolta og hitta ofan í rör eftir fyrirfram ákveðnum reglum og síðast en ekki síst var keppt í stígvélakasti, þar sem dæmt var eftir lengd og stefnufestu. Veitt voru verðlaun fyrir hverja þraut fyrir sig, en það voru Selfossveitur sem voru stigahæsta liðið samanlagt og fengu því sigurverðlaun dagsins. Selfossveitur voru með besta árangur samanlagt í þrautum dagsins Veitudagurinn þótti heppnast vel og líklegt verður að teljast að hann verði héðan í frá fastur liður á Fagþingum Samorku. Myndir frá deginum má sjá á Facebooksíðu Samorku