Skráning hafin á Samorkuþing

Samorkuþing 2021 verður haldið dagana 30. september – 1. október í Hofi á Akureyri. Nú skal haldið upp á 25 ára afmælisþing samtakanna sem fór á frest árið 2020 – og er ætlunin enn að gera Samorkuþingið hið allra öflugasta hingað til.

Boðið verður uppá fjölbreytta dagskrá með metnaðarfullum erindum og vinnustofum þar sem fjallað verður um alla þætti starfsemi aðildarfyrirtækja Samorku: Hitaveitur, vatnsveitur, fráveitur, framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu á raforku – frá mörgum hliðum – allt frá auðlindum, framkvæmdum, stoðstarfsemi og til samskipta við viðskiptavini.

Einnig verður glæsileg vöru- og þjónustusýning helstu samstarfsaðila orku- og veitugeirans.

Að venju verður hátíðarkvöldverður ásamt skemmtun og maka- og gestaferð, auk þess sem boðið verður upp á netagerð fyrir nýliða og ungt fólk í geiranum.

Allar nánari upplýsingar um þingið og skráningarform má finna hér.

Finnur Beck ráðinn til Samorku

Finnur Beck, lögfræðingur, hefur verið ráðinn forstöðumaður málefnastarfs hjá Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja.

Finnur starfaði sem lögfræðingur HS Orku hf. frá árinu 2015 til 2020 og var um tíma settur forstjóri félagsins.

Finnur var áður meðal annars héraðsdómslögmaður hjá Landslögum og hefur sinnt stundakennslu við HR í Alþjóðlegum og evrópskum orkurétti og Fjármunarétti.

Í starfi sínu hjá HS Orku var Finnur fulltrúi félagsins í ýmsum nefndum og ráðum hjá Samorku. Hann þekkir því vel til samtakanna, þjónustu þeirra við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja.

„Orku- og veitugeirinn er ein af grunnstoðum íslensks samfélags og framundan eru stór verkefni sem tengjast nýútkominni orkustefnu, orkuskiptum og loftslagsmálum meðal annars. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni með öflugu teymi hjá Samorku“, segir Finnur.

Finnur hefur þegar hafið störf.

Óskað eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna 2021

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög óska eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins fyrir 8. september. Verðlaunin eru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, á Umhverfisdegi atvinnulífsins 6. október í Hörpu.

Tekið er við tilnefningum með tölvupósti á sa@sa.is merktum „Tilnefning til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins“. Veitt eru tvenn verðlaun; umhverfisfyrirtæki ársins og framtak ársins.

Dómnefnd velur úr tilnefningum* og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins
• Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
• Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
• Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
• Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
• Innra umhverfi er öruggt
• Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
• Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið

Framtak ársins
• Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
• Hefur komið fram með nýjung – vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif

*Einungis er hægt að tilnefna skráða félagsmenn Samtaka atvinnulífsins til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins.

Dagskrá verður birt er nær dregur.

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök verslunar og þjónustu.

Hér má sjá Framtak ársins 2020 – Netparta:

Umhverfisframtak ársins 2020: Netpartar from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins kynntur í dag

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins verður formlega kynntur á rafrænum fundi í dag, miðvikudag, kl.15:00. Fundurinn verður í beinu streymi á Facebook og á Vimeo kl 15. Loftslagsvegvísir atvinnulífsins gefur yfirsýn yfir núverandi stöðu, auðveldar atvinnugreinunum að setja sínar loftslagsaðgerðir í stærra samhengi og hvetur atvinnulífið til frekari aðgerða.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ávarpar fundinn. Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI, kynnir vegvísinn ásamt Eggerti Benedikt Guðmundssyni, forstöðumanni Grænvangs.

Fjölmargir aðilar standa að útgáfunni: Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Bændasamtök Íslands auk Grænvangs.

Óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna verði eytt

Hreint neysluvatn er einn af hornsteinum heilbrigðis og lífsgæða. Vatnið okkar er ein helsta auðlind landsins og aðgengi að því hér á landi er afar gott og gæði þess mikil.

Vatnsveitur á Íslandi sinna því mikilvæga hlutverki að tryggja heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða drykkjarvatni á sanngjörnu verði. Þrátt fyrir að heimili og fyrirtæki noti mikið vatn er kostnaður vegna kaldavatnsnotkunar langlægstur hér á landi þegar höfuðborgir á Norðurlöndum eru bornar saman.

Sterkir og öruggir innviðir eru okkur mikilvægir og mikil sátt ríkir um uppbyggingu þeirra og rekstur. Til þess að vatnsveitur geti áfram sinnt hlutverki sínu til framtíðar þarf að tryggja vatnsveitum nægilegt fjármagn svo þær geti staðið undir rekstrinum og fjárfestingum til framtíðar. Það er meðal annars gert með því að innheimta þjónustugjald og mikilvægt er að það gjald endurspegli raunverulegan kostnað við að veita þjónustuna.

Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar“.

Eins og kunnugt er hefur komið upp ágreiningur um túlkun hugtaksins fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga og í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins gengið út frá því að hann taki eingöngu til vaxtakostnaðar af lánum. Þetta er sérstakt í ljósi þess að enginn ágreiningur hefur verið um það hingað til að fjármagnskostnaður tekur bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigin fjár.

Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um ólögmæti núverandi vatnsgjalds byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð.

Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, s.s. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og Hollandi svo einhver dæmi séu nefnd, er einnig gert ráð fyrir arði af rekstri í gjaldskrám vatnsveitna.

Mikilvægt er að eigendum vatnsveitna sé tryggð eðlileg arðsemi þess eigin fjár sem sett er í veitukerfin þannig að ekki sé hikað við að ráðast í fjárfestingar og úrbætur. Slíkir hagrænir hvatar til fjárfestingar tryggja að fyrirtækjum séu búin þau skilyrði að geta fjármagnað sig á eðlilegum forsendum til lengri tíma.

Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku hafa lengi átt í viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins um gerð leiðbeininga um forsendur við gerð gjaldskrár vatnsveitna þannig að þær séu skýrar og þar með að þessi grundvallar skilningur á hugtakinu fjármagnskostnaður sé viðurkenndur og þeirri óvissu sem nú er uppi í rekstri vatnsveitna sé eytt.

Almar ráðinn fagsviðsstjóri Samorku

Almar Barja hefur verið ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku.

Almar útskrifaðist með M.Sc. í sjálfbærum orkufræðum frá Iceland School of Energy árið 2015 og er einnig með B.Sc. í jarðfræði frá Háskóla Íslands.

Undanfarin fimm ár hefur Almar unnið sem hagfræðiráðgjafi hjá bresku ráðgjafastofunni Economic Consulting Associates. Þar vann hann með alþjóðastofnunum eins og World Bank, EBRD og fjölda ríkisstjórna að verkefnum tengdum orku- og veitumálum.

Almar kom til starfa í dag og bjóðum við hann hjartanlega velkominn til Samorku.

Gróðureldar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk

Nokkur viðbúnaður var hjá Veitum vegna gróðureldanna í Heiðmörk í gærkvöldi. Vatnsból höfuðborgarinnar, og vatnsverndarsvæðið í kringum þau, eru staðsett í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, t.d. af olíu eða öðrum efnum sem geta komist af yfirborði í gegnum jarðlögin og í grunnvatnsstraumana. Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna aukinnar hættu á mengunarslysum, sem skapast getur vegna mikillar umferðar stórra ökutækja er bera með sér töluvert magn eldsneytis inn á vatnsverndarsvæðið.

Auk vatnsverndar var gripið til annarra varúðarráðstafana svo verja mætti mannvirki og búnað vatnsbólanna. Vatnstankar voru settir á yfirfall til að bleyta upp í yfirborði í nágrenni vatnstökumannvirkja og sett var upp brunanhanatenging sem slökkvilið gæti notað í Vatnsendakrikum, einum af þremur vatnstökustöðum Veitna í Heiðmörk, sem slökkvilið gat notað við slökkvistarf. Fyrir voru nokkrir brunahanar í Heiðmörk sem settir voru upp fyrir nokkrum árum vegna hættu á gróðureldum. Mönnun í stjórnstöð var aukin ef færa þyrfti vatnstöku á milli svæða og/eða stýra framleiðslunni handvirkt. Snör handtök viðbragðsaðila komu í veg fyrir að nýta þyrfti þessar ráðstafanir.

Neysluvatn höfuðborgarbúa er tekið úr borholum á vatnstökusvæðunum í Heiðmörk og er ekki talið að gróðureldar á yfirborði af þessari stærðargráðu og á þessum stað hafi mælanleg áhrif á vatnsgæði. Veitur hafa nýverið sett upp efnavöktunarbúnað á báðum aðalvatnslögnum frá Heiðmörk til að vakta í rauntíma möguleg áhrif eldgoss á Reykjanesi á efnasamsetningu vatns. Sá búnaður getur einnig nýst til að meta hugsanlegar breytingar, á þeim þáttum er hann mælir, af öðrum völdum, t.d. gróðurelda. Eins og ávallt verður fylgst vel með gæðum vatnsins og ef talin er ástæða til verður sýnataka aukin frá reglubundu eftirliti.

Frétt frá Veitum. 

Sara Björk og HM í endurnýjanlegri orku

Sara Björk, landsliðskona í knattspyrnu, tekur þátt í heimsmeistarakeppninni í endurnýjanlegri orku. Fetar hún í fótspor samherja síns hjá frönsku meisturunum Lyon, Ada Hegerberg, sem setti keppnina á vegum Energi Norge.

Keppnin var sett af stað til að minna á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum og gera úr því góðlátlega keppni á milli landa. Samorka ákvað að taka áskorun Energi Norge og taka þátt.

Ísland stendur vel að vígi í þessari heimsmeistarakeppni. Ísland framleiðir eingöngu endurnýjanlega orku, en jarðefnaeldsneyti er enn notað í samgöngur. Alls er 83% af allri orku sem notuð er innanlands endurnýjanleg. Það er hins vegar hægt að fara alla leið.

Orkuskipti í samgöngum eru grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið er það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun. Það myndi spara háar upphæðir sem fara annars í innkaup á innfluttri olíu og loftslaginu hlíft við milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum.

Frekari upplýsingar um hvar Ísland stendur í orkumálum má sjá hér.

 

Fráveituauglýsing tilnefnd til Lúðursins

Verkefnið Piss, kúkur, klósettpappír, sem unnið var fyrir Samorku og Umhverfisstofnun í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin var á dögunum tilnefnt til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna. Hér má sjá tilnefningarnar.

Verkefnið er tilnefnt í flokknum Almannaheill, enda öllum til bóta ef við göngum vel um veitukerfin. Það var auglýsingastofan Hvíta húsið sem vann efnið og er öllum aðgengilegt á vefnum klosettvinir.is.

 

 

 

Meta lægra kolefnisspor verktaka í útboðum

Veitur hafa tekið ákvörðun um að leggja meiri áherslu á umhverfismál í vali á verktökum á vegum fyrirtækisins og stuðla þannig að orkuskiptum í framkvæmdum. Skilyrði verða sett í útboðslýsingar er fá verktaka til að huga enn frekar að umhverfismálum og aðgerðum til að minnka kolefnisspor sitt. Einnig geta umhverfisþættir sem leiða af sér minna kolefnisspor framkvæmda vegið allt að 20% þegar tilboð eru metin.

Markmiðið með þessari nýjung er að lækka kolefnisspor framkvæmda á vegum Veitna og um leið verktaka á þeirra vegum. Þetta er í samræmi við umhverfisstefnu Veitna um stöðugar umbætur í umhverfismálum og því markmiði fyrirtækisins að verða kolefnishlutlaust árið 2030.

Gestur Pétursson er framkvæmdastjóri Veitna:

„Við hjá Veitum höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Þeim verður ekki náð nema fyrirtækið stýri sinni loftslagstengdu áhættu og beiti áhrifum sínum í virðiskeðjunni til ábyrgrar umgengni við umhverfið. Veitur eru fimmti stærsti framkvæmdaaðili landsins sé mið tekið af þeim fjárhæðum sem verja á í fjárfestingar á Íslandi í ár. Stærðinni fylgir ákveðinn slagkraftur sem nýta má til góðs í loftslagsmálum og það viljum við gera. Við hlökkum til að vinna eftir þessu nýja fyrirkomulagi og munum leitast við að vera í góðu samstarfi við alla þá er koma að þeim umfangsmiklu framkvæmdum sem uppbygging og rekstur veitukerfanna krefst á hverju ári.“

Nánari upplýsingar má sjá á vef Veitna.