Tvö ný í stjórn Samorku

Þau Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitum, og Steinn Leó Sveinsson hjá Skagafjarðarveitum tóku í dag sæti í stjórn Samorku á aðalfundi samtakanna í fyrsta sinn. Þá verður Kristín Linda Árnadóttir áfram fulltrúi Landsvirkjunar í stjórn Samorku næstu tvö árin.

Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Berglind Rán Ólafsdóttir, Orku náttúrunnar, formaður Samorku, Helgi Jóhannesson, Norðurorku, Tómas Már Sigurðsson, HS Orku og Sigurður Þór Haraldsson hjá Selfossveitum.

Þá tóku tveir nýir varamenn sæti í stjórn Samorku í dag. Aðalsteinn Þórhallsson hjá HEF Veitum og Jón Trausti Kárason hjá Veitum. Hörður Arnarson verður áfram varamaður Landsvirkjunar í stjórn til næstu tveggja ára. Þau Elías Jónatansson hjá Orkubúi Vestfjarða og Helga Jóhanna Oddsdóttir hjá HS Veitum sitja áfram sem varamenn.

Stjórn Samorku að loknum aðalfundi 15. mars 2022 er því þannig skipuð:

Formaður:
Berglind Rán Ólafsdóttir, Orku náttúrunnar

Meðstjórnendur:
Helgi Jóhannesson, Norðurorku
Hrefna Hallgrímsdóttir, Veitum
Kristín Linda Árnadóttir, Landsvirkjun
Sigurður Þór Haraldsson, Selfossveitum
Steinn Leó Sveinsson, Skagafjarðarveitum
Tómas Már Sigurðsson, HS Orku

Varamenn:
Aðalsteinn Þórhallsson, HEF Veitum
Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða
Helga Jóhanna Oddsdóttir, HS Veitum
Hörður Arnarson, Landsvirkjun
Jón Trausti Kárason, Veitum

Þá var ályktun aðalfundar 2022 samþykkt. Þar kallar aðalfundur Samorku eftir því að næg raforka og heitt vatn verði tryggt til framtíðar, svo hægt verði að mæta fólksfjölgun, nýjum atvinnutækifærum, aukinni rafvæðingu samfélagsins, vályndu veðri og ekki síst metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum.

Í ályktunni kemur fram að orku- og veitufyrirtækjum landsins hafi verið ætlað stórt hlutverk í þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett í loftslagsmálum. Til þess að þau geti sinnt því hlutverki þurfi stjórnsýslan öll að styðja við þá vegferð, til dæmis með því að einfalda laga- og regluverk, tryggja orkuöryggi landsins með nægu framboði af grænni orku og að innan stjórnkerfisins verði sérþekking á orku- og veitumálum styrkt.

Ályktun aðalfundar 2022 í heild sinni (pdf)

Aukavél bætt við vegna Samorkuþings

Icelandair hefur bætt við flugi til og frá Akureyri vegna Samorkuþings. Fullbókað var orðið í hefðbundið áætlunarflug og því hefur verið brugðist við.

Icelandair hefur bætt við vél sem fer frá Reykjavík kl. 8.30 mánudagsmorguninn 9. maí og frá Akureyri þriðjudaginn 10. maí kl. 17.30. Dagskrá hefst kl. 10 á mánudeginum og lýkur um kl. 16 á þriðjudeginum, svo þessar tímasetningar passa mjög vel fyrir Samorkuþingsgesti.

Við hvetjum alla þá sem ætla sér að fljúga norður vegna þingsins að tryggja sér sæti sem fyrst.

Hér má skrá sig á þingið:

    Vinsamlegast hakið í allt sem við á:

    Ég mæti á Samorkuþing 2022 - 49.000 kr.
    Sýnendur hakið hér í stað efra box
    Ég mæti á netagerð fyrir nýliða og ungt fólk í geiranum á Bryggjunni - ókeypis
    Hátíðarkvöldverður - 17.900 kr.
    Hátíðarkvöldverður maka - 17.900 kr.
    Ég vil grænkeramáltíð
    Maki vill grænkeramáltíð
    Makaferð - 12.500 kr.

    Nafn maka (fyrir nafnspjald)

    Græn framtíð: Hvað þarf til?

    Opinn ársfundur Samorku verður haldinn þriðjudaginn 15. mars í Norðurljósum, Hörpu og hefst kl. 13. Græn framtíð: Hvað þarf til?

    Umfjöllunarefni fundarins er þau tækifæri og áskoranir sem felast í því markmiði stjórnvalda að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust innan fárra ára.

    Allir eru velkomnir á fundinn. Aðgangur er ókeypis en skráningar er óskað. 

     

    Aðalfundur Samorku 2022

    Aðalfundur Samorku verður haldinn í Norðurljósum, Hörpu, þann 15. mars 2022. Fundurinn hefst kl. 10.30.

    Stefnt er að aðalfundi þar sem gestir mæta í eigin persónu. Mæting á staðinn og þá eftir atvikum fjöldi þeirra sem getur mætt, ræðst af þeim reglum sem þá munu gilda um samkomutakmarkanir.

    Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á aðalfundinum með því að skrá ykkur hér fyrir neðan eigi síðar en mánudaginn 14. mars.

    Dagskrá:

    10:00 Skráning
    10:30 Aðalfundarstörf

    Setning: Berglind Rán Ólafsdóttir, formaður stjórnar Samorku

    Dagskrá aðalfundar skv. lögum Samorku :

    1. Kjör fundarstjóra og fundarritara
    2. Skýrsla stjórnar
    3. Ársreikningur ásamt skýrslu endurskoðanda
    4. Fjárhagsáætlun
    5. Tillögur um lagabreytingar (engar)
    6. Tillögur kjörnefndar
    7. Kjör stjórnar, stjórnarformanns og endurskoðanda
    8. Kjör í kjörnefnd
    9. Önnur mál
      – Tillaga að leiðbeiningum fyrir kjörnefnd
      – Tillaga að ályktun aðalfundar

    13.00 Opinn ársfundur: Græn framtíð – hvað þarf til?

    Ársfundurinn verður einnig í beinni útsendingu á heimasíðu Samorku.

      Ég þigg hádegisverð

      Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2022

      Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

      Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á ársfundi samtakanna 15. mars. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin verða afhent.

      Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, vísinda- og nýsköpunarráðherra, afhendir verðlaunin.

      Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

      • Tæknilausnum fyrir orku- og veitugeirann eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
      • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

      Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

      Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

      Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

      Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 24. febrúar. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

      Laki Power hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku þegar þau voru afhent í fyrsta sinn árið 2021.

      Ný greining staðfestir spá um orkuskort

      Ný greining Landsnets um afl- og orkujöfnuð staðfestir þá niðurstöðu frá sambærilegri greiningu sem unnin var 2019 að orkuskortur verði viðvarandi vandamál á Íslandi næstu árin ef ekki verður brugðist skjótt við.

      Þetta byggir á þeirri spá um þróun eftirspurnar eftir raforku sem birt er í Raforkuspá Orkustofnunar og þeirri þróun í framleiðslu orku sem orðið hefur á síðustu árum og er fyrirsjáanleg yfir tímabil greiningarinnar sem nær til ársins 2026. Þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að nýjasta Raforkuspá geri ráð fyrir lægra álagi en sú sem miðað var við í greiningunni árið 2019 vegna áhrifa heimsfaraldursins.

      Líkur á aflskorti eru undir viðmiðum Landsnets á þessu ári en fara hækkandi eftir það. Þetta þýðir að ekki verði hægt að sinna eftirspurn eftir raforku yfir háálagstíma og skerði þurfi notendur í vaxandi mæli.

      Til að bregðast við þessari stöðu þurfa því að koma til nýjar orkuframleiðslueiningar, orkusparnaður t.d. með minnkun tapa, bætt nýting á núverandi virkjunum með uppbyggingu flutningskerfis eða þá með því að markvisst að draga úr raforkunotkun í kerfinu.

      Hvort sem ákveðið verður að fara eina leið fram yfir aðra eða ákveðið að gera allt sem að ofan er talið er mikilvægt að brugðist sé skjótt við til að lágmarka fjárhagslegt tjón sem hlýst af orkuskerðingum og losun gróðurhúsalofttegunda vegna brennslu jarðefnaeldsneytis.

      Áætlanir hjá Landsneti um uppbyggingu flutningskerfisins hafa undanfarin ár tekið mið af þessari stöðu og miðast þær við að hægt verði að hámarka nýtingu virkjana á næstu árum, auðvelda tengingu nýrra orkuframleiðslueininga, auk þess að ná fram orkusparnaði með minnkandi töpum í flutningskerfinu. Að mati Landsnets er mikilvægt að uppbygging nýrrar kynslóðar byggðalínu gangi eftir áætlunum og óskilvirk ferli verði ekki til þess að tefja þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir.

      Skýrsluna má sjá hér.

      Hlutfall kvenna hækkar í orkugeiranum

      Hlutfall kvenkyns stjórnarformanna hefur farið úr 25% í 58% á aðeins fjórum árum í orkugeiranum á Íslandi. Þá hefur hlutfall kvenkyns framkvæmdastjóra hækkað um 10% á tveimur árum og er nú 46%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Kvenna í orkumálum sem var gefin út í dag.

      Félagið Konur í orkumálum gefur út skýrslu um stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi á tveggja ára fresti. Skýrslan, sem unnin er af EY, varpar ljósi á stöðu kvenna í orkugeiranum á Íslandi, sem löngum hefur verið karllægur. Það er þó að breytast.

      Ný skýrsla kom út í þriðja sinn í gær og var kynnt í Grósku við það tilefni. Í henni kemur meðal annars fram að á tveimur árum hefur kvenkyns framkvæmdastjórum í orkugeiranum fjölgað um 10% og að 58% stjórnarformanna orkufyrirtækja eru nú konur. Hlutfall kvenna í stöðum forstjóra, deildarstjóra og meðstjórnenda lækkar, en á sama tíma fjölgar konum í almennum stöðugildum í orkugeiranum á Íslandi og er nú 27%. Ákvörðunarvald liggur hjá konum í 36% tilfella í orkugeiranum hér á landi, samanborið við 30% í fyrstu skýrslunni sem kom út.

      Harpa Þórunn Pétursdóttir formaður KíO: „Það er mjög ánægjulegt að sjá svona miklar breytingar á skömmum tíma í orkugeiranum hvað varðar ákvörðunarvald kvenna. En það er enn verk fyrir höndum. Það er áhyggjuefni að sjá skref tekin afturábak á sumum sviðum og sem fyrr er það stórt verkefni að jafna hlut kvenna í almennum stöðugildum í íslenska orkugeiranum.“


      Harpa Pétursdóttir, formaður Kvenna í orkumálum.

      Hún segir skýrslu KíO veita aðhald í þessum málaflokki. „Við vonum að niðurstöður skýrslunnar hafi jákvæð áhrif á þróunina frá ári til árs og að þær séu hvatning til fyrirtækja í geiranum til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leiðrétta kynjahlutfall á öllum sviðum. Aukin fjölbreytni leiðir til betri stjórnunar og ákvörðunartöku.“

      Athygli vekur að konur eru aðeins 8% forstjóra í orkugeiranum á Íslandi, eða ein kona hjá þeim tólf fyrirtækjum sem liggja til grundvallar skýrslunni. Harpa segir að þetta hlutfall verði að bæta. „Á næstu árum er mikilla breytinga að vænta í forstjórastöðum í orkugeiranum og þá verður einfaldlega að laga hlutfall kvenna.“

      Skýrsluna má sjá hér: https://issuu.com/konuriorkumalum/docs/kio_skyrsla_2021_final_b


      Skýrslan var styrkt af: Orkuveitu Reykjavíkur, Landsvirkjun, HS Orku, Norðurorku, RARIK og Samorku.

      Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna 2022

      Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu miðvikudaginn 2. febrúar 2022. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála fyrir 21. desember nk. Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki og menntasproti ársins 2022, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

      Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

      • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
      • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
      • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
      • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflunar

      Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

      • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu-innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja
      • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu-innan sem utan fyrirtækja

      Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf en skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta verkefni. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

      Tilnefningar og fylgiskjöl sendist rafrænt í tölvupósti á verdlaun@sa.is – eigi síðar en þriðjudaginn 21. desember nk. Ekki er tekið við tilnefningum eða gögnum eftir þann tíma.

      Verðlaunin verða veitt á Menntadegi atvinnulífsins 2. febrúar 2022 en þetta er í níunda sinn sem dagurinn er haldinn.

      Orkuskipti á hafi möguleg fyrir árið 2050

      Mögulegt er að orkuskipti innlenda skipaflotans verði um garð gengin fyrir árið 2050. Til þess að það geti gerst þarf að tryggja framleiðslu og innviði fyrir rafeldsneyti og öflug stefnumótun að vera til staðar frá stjórnvöldum, með stuðningi við fjárfestingar, skattalegum hvötum og skýrum kröfum um vaxandi hlutfall grænnar orku í stað jarðefnaeldsneytis.

      Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu sem norska ráðgjafafyrirtækið DNV gerði fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Faxaflóahafnir.

      Fram kemur í skýrslunni að þrátt fyrir að rafhlöður séu ávallt besti kosturinn í nýtingu á hreinni orku, þá muni þær fyrst og fremst nýtast þar sem vegalengdir eru stuttar. Þegar kemur að stærri skipum verði útgerðir þeirra að reiða sig á rafeldsneyti eins og til dæmis ammoníak, vetni eða metanól. Reiknað er með að tæknin til að nýta rafeldsneyti á skip verði aðgengileg, í mismiklum mæli, í kringum árið 2030. Ráðandi orkugjafar verði að öllum líkindum ammóníak og metanól. Til að framleiða það rafeldsneyti sem þarf til að klára orkuskipti í haftengdri starfsemi er áætlað að árlega þurfi um 3.500 GWh (3.5 TWh) af raforku miðað við eldsneytisspá Orkustofnunar fyrir árið 2050. Það er tæplega 20% þeirrar raforku sem framleidd er í dag.

      Gunnar Tryggvason sviðsstjóri viðskipta hjá Faxaflóahöfnum, Benedikt Sigurðsson upplýsingafulltrúi SFS, Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku og fundarstjóri.

      Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku: „Niðurstöður skýrslunnar sýna er að orkuskipti á hafi eru möguleg og það er ánægjuleg framtíðarsýn að geta keyrt skipaflota framtíðarinnar á grænni orku sem unnin er úr vatnsafli, jarðvarma og vindi. Það er meira spurning um hvenær tæknin leyfir það og hversu hratt við náum árangri í þessu stóra verkefni. Auk þess sýna niðurstöðurnar að orkuskipti á hafi kalla á að næg græn orka sé til og traustir innviðir séu til staðar um allt land, eins og fyrir önnur orkuskipti.“

      Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS: „Það er mjög jákvætt að vera komin með ítarlega greiningu á mögulegum orkuskiptum á hafi – hver staðan er, hvar tækifærin liggja og, ekki síst, hvaða hindranir mæta okkur. Það er ekki síður gagnlegt og mikilvægt að vinna þetta á breiðum grundvelli. Það er einmitt svona sem þarf að vinna þessi mál – á breiðum grundvelli, með samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs.“

      Gunnar Tryggvason, sviðsstjóri viðskipta hjá Faxaflóahöfnum: „Orkuskipti á hafi eru stórt viðfangsefni og skýrslan vísar okkur veginn inn í næstu skref. Niðurstöður hennar eru raunsæisákall um að grípa þurfi til aðgerða strax til að ná 10% markmiðinu um grænt eldsneyti í haftengdri starfsemi árið 2030.“

      Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði fundinn og fagnaði góðu samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs við gerð skýrslunnar. Í niðurstöðum hennar væru nokkrar sviðsmyndir sem hægt væri að rýna og vinna áfram með í því stóra og spennandi viðfangsefni sem orkuskipti eru.

      Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fundinum í morgun.

      Meðfylgjandi er skýrslan í heild sinni þar sem sjá má ítarlegar forsendur og niðurstöður. Einnig er íslensk þýðing á inngangi og stuttri samantekt.

      Decarbonization Icelandic Maritime Sector

      Þýðing DNV

      Upptaka af fundinum: