Drög að dagskrá komin fyrir Orkuþing 2001

Drög að dagskrá Orkuþings liggur nú fyrir, með fyrirvara um breytingar. Mikill fjöldi tillagna um erindi barst og verður að hluta til fundað í fjórum og jafnvel fimm sölum á Grand Hótel um ýmsar hliðar orkumála. Flutt verða um 120 erindi þessa þrjá daga. Smelltu á hana Jóku hér til hliðar til að fá nánari upplýsingar. Hún Jóka er tröllkona. Hún tilheyrir Gjótufólkinu sem voru frumbyggjar Íslands. Á myndinni er hún að baða sig í heitri laug. Með henni á myndinni er hverafugl af kyni hrafns. Myndin er máluð af Elínu G. Jóhannsdóttur myndlistarkonu, en hún hefur málað margar myndir af Gjótufólkinu.

Tvö hitaveitunámskeið og eitt vatnsveitunámskeið í byrjun maí

Námskeið Samorku í maí Í maí verða haldin tvö námskeið fyrir hitaveitumenn. 3.-4. maí verður haldið námskeið um endurvirkjun og viðhald borhola. Og 10. og 11. maí verður haldið hið árlega námskeið um samsetningu hitaveituröra í samvinnu við Iðntæknistofnun. 11. maí verður haldið plastsuðunámskeið fyrir vatnsveitur. hjá Reykjalundi í Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar um námskeiðin er hér til hægri á síðunni.

Vel viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun

Viðráðanlegt verkefni að draga úr loftslagsmengun Margar leiðir eru færar til þess að draga úr mengun vegna gróðurhúsalofttegunda, án þess að því fylgi óyfirstíganlegur kostnaður. Þetta kemur fram í niðurstöðu nýlegrar skýrslu milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar sem Halldór Þorgeirsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu sagði frá á hádegisfundi Landverndar 29.mars. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar IPCC hefur nú nýverið sent frá sér skýrslu um veðurfarsbreytingar af mannavöldum, afleiðingar þeirra og möguleg viðbrögð. Gert er ráð fyrir að hlýnun til næstu aldamóta geti orðið 1,4 til 5,8°C en líklegasta hlýnun er talin vera nálægt 2°C. Gert er ráð fyrir að sjávarborð hækki um 9 til 88 cm, að hafstraumar veikist á norðurhveli og ekki er reiknað með meiriháttar röskun á þeim. Einnig er gert ráð fyrir meiri úrkomu til pólanna og þurrki yfir meginlöndum. Margar leiðir eru færar til að bregðast við en engin ein leið leysir allan vanda. Ekki er reiknað með að kostnaður við að draga úr losun sé verulegur og margt af því sem hægt sé að grípa til sé einnig hægt að gera án kostnaðar, þ.e. nettó hagnaður yrði af aðgerðunum. Kostnaður af afganginum er áætlaður 2.410 kr á tonn CO2. Þrjár leiðir eru nefndar í kolefnishringrásinni; það er að vernda kolefndisforða í skógi og jarðvegi, að auka bindingu kolefnis í skógi og jarðvegi og að nota lífrænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.

Varað við að nota heitsinkhúðuð rör í neysluvatnslögnum hjá sumum veitum

Tæring og ryðmyndun í heitsínkhúðuðum neysluvatnslögnum Rannsóknarverkefnið Tæring og ryðmyndun í heitsinkhúðuðum neysluvatnslögnum hófst í júlí 1995 að frumkvæði Einars heitins Þorsteinsson deildarstjóra lagnadeildar Rb og Péturs Sigurðssonar, efnaverkfræðings. Áætlað er að verkinu ljúki síðla árs 2001. Íbúðalánasjóður og Sambands íslenskra tryggingarfélaga styrktu verkið og tíu vatnsveitu og Samorka tóku þátt í verkefninu. Verkefnisstjóri í dag er Jón Sigurjónsson. Markmið rannsóknarinnar er m.a. að finna orsakir tæringar í sinkhúðuðum lögnum og ryðmyndun og að rannsaka hvar á landinu sinkhúðuð rör henta og hvar ekki. Nú er komin út áfangaskýrsla um verkið en lokaskýrsla er væntanleg í árslok. Nokkuð ákveðnar niðurstöður um tæringarhraða liggja fyrir, sem nota má til að vara við notkun heitsinkhúðaðraröra í neysluvatnslagnir frá Höfn í Hornafirði til og með Norðfjarðar ásamt Borgarnesi. Auk þess sem líkur eru á lélegri endingu þar sem sýrustig (ph) er lægra en 7.

Pétursborg fær hreint drykkjarvatn

Pétursborg fær hreinna drykkjarvatn Rússneska fyrirtækið Vodokanal fékk í gær í þriðja sinn verðlaun fyrir að bjóða besta drykkjarvatnið í Rússlandi, en það hreinsar skolpvatn í Pétursborg og endurnýtir. Felix Karmazinov forstjóri sagði á fundi með norrænum blaðamönnum í dag, að góðan árangur fyrirtækisins mætti að hluta til rekja til norrænna samstarfsverkefna. Árið 1978 var öllu skolpi veitt óhreinsuðu frá Rússlandi í Eystrasalt. Nú er 75% alls skolps hreinsað. Vodokanal ráðgerir að auka enn afköstin með nýrri hreinsistöð í suðvesturhluta Pétursborgar – og enn á ný með norrænni aðstoð. Nýja hreinsistöðin á að vera tilbúin árið 2004 – árið eftir að Pétursborg fagnar þriggja alda afmæli sínu. Karmazinov vonast til að allt skolp frá borginni verði hreinsað og endurnýtt á árinu 1015. Vefsetur Norrænu upplýsingaskrifstofunnaí Rússlandi www.norden.ru

Jarðlagnatæknar útskrifast

Föstudaginn 16.mars útskrifuðust 12 jarðlagnatæknar. Þetta er í þriðja sinn sem þetta námskeið er haldið og áður hafa þrjátíu og fjórir lokið þessu námi. Það er hugsað fyrir þá sem vinna við lagnir hjá hitaveitum, vatnsveitum, rafveitum, fráveitum og síma. Námið er 300 kennslustundir og er kennt í þremur lotum. Það er MFA Menningar og fræðslusamtök alþýðu sem hafa umsjón með náminu.

Nýr formaður Samorku

Guðmundur Þóroddsson nýr formaður Samorku Aðalfundur Samorku var haldinn sl. föstudag 16.mars. Samkvæmt lögum félagsins er gert ráð fyrir að formenn sitji ekki lengur en fjögur ár og gaf Júlíus Jónsson ekki kost á sér til áframhaldandi setu í formannssæti í samræmi við þetta ákvæði. Formaður var kosinn Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Annar nýr maður í stjórn er Friðrik Sophusson, Landsvirkjun og í varastjórn kemur nýr inn Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar. Júlíus var kosinn í stjórn. Úr stjórn gengu Hólmsteinn Sigurðsson, Orkuveitu Reykjavíkur og Jóhann Már Maríuson, Landsvirkjun. Og úr varastjórn gekk Jóhann Bergmann, Vatnsveitu Reykjanesbæjar. Stjórn Samorku skipa nú eftirtaldir menn: Guðmundur Þóroddsson, Orkuveitu Reykjavíkur, formaður Franz Árnason, Norðurorku Friðrik Sophusson, Landsvirkjun Ingvar Baldursson, Hitaveitu Rangæinga Júlíus Jónsson, Hitaveitu Suðurnesja Kristján Jónsson, Rafmagnsveitum ríkisins Kristján Haraldsson, Orkubúi Vestfjarða Í varastjórn eiga sæti: Friðrik Friðriksson, Bæjarveitum Vestmannaeyja Sigurður Ágústsson, Rafveitu Sauðárkróks Dagur Jónsson, Vatnsveitu Hafnarfjarðar

Nýtt lagafrumvarp um hitaveitur fyrirhugað

Iðnaðarráðherra boðar ný lög fyrir hitaveitur Á aðalfundi Samorku föstudaginn 16. mars sl. flutti iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir ávarp. Í því kom fram að hún hugar að gerð lagafrumvarps um hitaveitur og að sú vinna hefist innan skamms. Vinnan verður unnin á vegum iðnaðarráðuneytisins, en hún mun óska eftir að Samorka tilnefni í vinnunefndina tvo fulltrúa frá Samorku. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi á haustdögum og afgreitt fyrir árslok. Vinna er hafin við endurskoðun vatnalaganna frá 1923. Hún sagði einnig að stefnt sé að því að leggja raforkulagafrumvarpið fyrir á þessu þingi og að það verði afgreitt í haust. Miðað er við að lögin taki gildi eigi síðar en 1. júlí 2002, en þá rennur út frestur EES-landanna til að taka upp raforkutilskipun Evrópusambandsins. Ráðherra benti á að þessar breytingar á raforkulagaumhverfi sé afar flókið og viðamikið mál og þær munu hafa veruleg áhrif á starfsemi flestra raforkufyrirtækja, sem þurfa að aðlaga sig að nýrri hugsun og breyttu umhverfi og engin furða að ágreiningur skuli vera um það á hvern hátt skynsamlegast sé að verki staðið. Breytingarnar þarf að vinna í áföngum og endurmeta þarf stöðuna innan fárra ára og skoða hverju mætti breyta til bóta.

Af rafsegulsviðsmálum

Af rafsegulsviðsmálum Í byrjun mars var birt skýrsla frá ráðgjafarnefnd NRPB sem eru geislavarnir ríkisins í Bretlandi. Í skýrslunni var tekið saman hvað hefur verið rannsakað á sviðinu og fátt nýtt kom fram. Þar staðfestir sir Richard Doll, helsti sérfræðingurinn á þessu sviði og formaður ráðgjafarhópsins, að hvorki væri sannað að rafsegulsvið valdi krabbameini í börnum né fullorðnum. Engar nýjar vísbendingar um áhrif rafsegulsviðs á mannslíkamann og starfssemi hans gefa ástæðu til að ætla að rafsegulsvið valdi heilsufari fólks hættu. Engar nýjar sannanir gefa tilefni til að breyta viðmiðunarmörkum rafsegulsviðs. Í skýrslunni er einnig bent á að rannsóknir á áhrifum rafsegulsviðs beinast að öllum notkunarstöðum rafmagns s.s. inni á heimilum en ekki einskorðaðar við loftínur. Vísindamenn um allan heim eru í æ ríkara mæli að verða þeirrar skoðunar að heilsufari fólks stafi engin meiriháttar áhætta af veru í rafsegulsviði. Samorka hefur um árabil fylgst með rannsóknum á áhrifum rafsegulsviðs á mannslíkamann m.a. með þátttöku í norrænu samstarfi en ekki hefur þótt ástæða til að framkvæma rannsóknir hér á landi. GV

Rannsóknir og tækniþróun

Á fundi stjórnar Samorku var ákveðið að stofna starfshóp um rannsóknir og tækniþróun á raforkusviði. Hópnum er ætlað koma af stað rannsóknar og tækniþróunarverkefnum sem snúa að íslenska raforkukerfinu. Hvort sem er doktorsverkefni, mastersverkefni eða önnur form á slíkum verkefnum. Litið er til NEFP (Nordisk energiforsknings program) varðandi fjármögnun verkefna. Búið er að skipa í hópinn sem Ásbjörn Blöndal Ólason veitustjóri á Selfossi og fulltrúi Samorku í NEFP leiðir: Í hópnum verða: Ásbjörn Blöndal Ólason Selfossveitur Steinar Friðgeirsson Rarik Þorgeir Einarsson OR Þórður Guðmundsson Landsvirkjun Árni Ragnarsson Orkustofnun Egill B. Hreinsson Háskóli Íslands Jón M. Halldórsson Rafhönnun Jón Bergmundsson Verkfræðistofan Afl Snæbjörn Jónsson Rafteikning Með hópnum starfar Guðmundur Valsson Samorku Tilgangur hópsins er: – Stuðla að auknum innlendum samskiptum og samvinnu fagfólks á raforkusviði og efla samstarf við norræna vísindamenn og sérfræðinga. – Setja fram hugmyndir að doktorsverkefnum og öðrum verkefnum á rafmagnssviði sem henta til úrvinnslu innan Norrænna orkurannsókna (NEFP) og/eða annarra rannsókna- og vísindastofnana. – Stuðla að opinni kynningu á rannsóknar- og vísindastarfi og þá sérstaklega innan NEFP.