12. ágúst 2025 Brýnt að styrkja dreifiveitur Evrópu gegn loftslagsvá Orkukerfi Evrópu standa frammi fyrir vaxandi hættu af völdum loftslagsbreytinga og brýnt er að efla viðnámsþol dreifikerfa raforku til að bregðast við öfgum í veðurfari og öðrum afleiðingum hlýnunar jarðar. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Eurelectric, Evrópusamtaka rafiðnaðarins. Í skýrslunni er kallað er eftir samræmdum aðgerðum á vettvangi Evrópusambandsins til að tryggja öryggi raforkunetsins í framtíðinni. Áhættan aukist gríðarlega Áhrif loftslagsbreytinga eru þegar farin að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir orkukerfi. Yfir 300 manns létu lífið í Evrópu árið 2024 vegna flóða og illviðris og þessi ógn á aðeins eftir að valda meira tjóni verði ekkert að gert. Evrópa er nú þegar sú heimsálfa þar sem loftslagshlýnun er hröðust. Sérfræðingar vara við fleiri hitabylgjum, tíðara ofsaveðri og meira vatnstjóni sem ógni getu dreifikerfa raforku til að tryggja raforku þegar hamfarir af þessu tagi ganga yfir. Stormurinn Éowyn sem gekk yfir Bretland og Írland í janúar á þessu ári leiddi t.d. til þess að ein milljón írskra heimila voru um tíma án rafmagns, nokkuð sem sýnir glögglega hversu innviðir af þessu tagi geti verið viðkvæmir fyrir áföllum. Þríþætt stefna til að byggja upp viðnámsþol Eurelectric kynnir í skýrslu sinni þríþætta nálgun sem dreifiveitur (DSOs) ættu að fylgja: Greining á áhættu og staðbundnum áhrifum – Með því að nýta loftslagslíkön IPCC og innlendar gagnagrunnsupplýsingar geta veitufyrirtæki greint veikleika og forgangsraðað endurbótum. Styrking dreifikerfa – Hún getur falið í sér notkun hitaþolinna kapla, vatnsheldar undirstöður og þéttara net til að tryggja varaafhendingu við rof. Í sumum tilvikum er ráðlagt að leggja raflínur í jörðu eða að undirstöður séu nægilega háar til að bregðast við flóðahættu. Skipulögð neyðarviðbrögð – Dreifiveitur þurfa að hafa aðgang að nauðsynlegum varahlutum. Viðbragðshópar þurfa að vera til reiðu og mikilvægt er að veiturnar eigi góða samvinna við viðbragðsaðila til að gera megi við tjón með skjótum hætti í kjölfar hamfara. Dæmi um árangursríkar aðgerðir Í skýrslunni eru nefnt fjölmörg dæmi víðsvegar að úr Evrópu um árangursríkar aðgerðir til úrbóta: Sikiley: Í kjölfar hitabylgju sem leiddi til víðtæks rafmagnsleysis árið 2023, innleiddi e-distribuzione veitufyrirtækið sérstaka áætlun til að bæta þéttleika dreifikerfisins og skipta út eldri jarðstrengjum. Írland: ESB Networks, sem er bæði flutnings-og dreifiveita, gerði umfangsmikla áhættugreiningu og setti upp varnir fyrir sérstaklega mikilvægan tækjabúnað í háspennustöðvum til að draga úr flóðahættu. Valencia, Spánn: Eftir söguleg flóð í október 2024 fjárfesti dreifiveitan I-DE 100 milljón evra í Project IL-LUMINA, þar sem lögð var áhersla á stafræna vöktun og endurhönnun kerfisins. Stefnumótandi ráðleggingar til stjórnvalda Eurelectric hvetur Evrópusambandið og aðildarríki til að grípa til eftirfarandi aðgerða: Breyta lögum og reglum í aðildarríkjum til að umbuna fyrir fjárfestingu í aðlögun raforkukerfa að loftslagsbreytingum. Tryggja að í NECP-áætlanagerð, þ.e. orku- og loftslagsáætlunum, sé að finna skýra kafla um viðnámsþol dreifikerfa. Fjárfestingar í viðnámsþrótti verði hluta af þróunaráætlunum dreifikerfa (DNDPs). Setja loftslagsviðmið í opinber innkaupaferli, m.a. samkvæmt reglugerð ESB um kolefnishlutlausan iðnað (Net Zero Industry Act). Mikilvæg fjárfesting til framtíðar Gert er ráð fyrir að stjórnendur evrópskra dreifikerfa raforku þurfi árlega að leggja í fjárfestingar upp á 67 milljarða evra, frá 2030 til 2050. Þar af þarf verulegur hluti að renna í aðlögun að ríkjandi veðurfari í framtíðinni. Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að búnaður sem er settur upp í dag þurfi að geta staðist aðstæður ársins 2075 og að aðgerðir þoli enga bið. „Þessum ákvörðunum má ekki slá á frest,“ segir í lok skýrslu Eurelectric. Sjá hlekk á skýrsluna: https://www.eurelectric.org/publications/strengthening-climate-resilience-strategies-for-enhancing-dso-resilience-against-climate-change/