10. apríl 2001 Hvatt til aukins samráðs Í ræðu sinni á samráðsfundi Landsvirkjunar minntist ráðherra á samráðsvettvang sem nokkur orkufyrirtæki og stofnanir stóðu að fyrir nokkrum árum. Á þessum vettvangi voru rædd málefni orkugeirans í víðasta skilningi. Hvatti hún eindregið til þess að samstarfið yrði endurvakið. Samorka fagnar þessum hugmyndum, sem eru vel í anda þeirrar meginhugsunar sem lá að baki sjónarmiðum samtakanna við gerð nýrra laga um mat á umhverfisáhrifum. Samorka hefur einnig lagt áherslu á samráð og samstarf í sem flestum málum og talið það vænlegustu leiðina til þess að eyða tortryggni og um leið auka skilvirkni stefnumótunar. Hugmyndin er að stofna hóp sem skipaður verði aðilum frá ráðuneyti, Orkustofnun, Samorku, orkufyrirtækjum, náttúruvernd, skipulagsstofnun o.fl. aðilum. Ætlunin er að hópurinn hittist reglulega og ræði þau málefni orkumála sem efst eru á baugi þá stundina.