12. ágúst 2021 Carbfix og ON fá 600 milljóna loftslagsstyrk Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. Carbfix og Orka náttúrunnar, dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur, hafa hlotið styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins (Innovation Fund) í verkefnið Silfurberg. Styrkurinn er einn sá hæsti sem veittur hefur verið til loftslagsverkefnis hér á landi og nemur um 3,9 milljónum evra, sem svara til tæplega 600 milljóna króna. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem íslenskt verkefni er styrkt af sjóðnum. Markmið Silfurbergs-verkefnisins er að byggja nýja hreinsistöð við Hellisheiðarvirkjun sem mun fanga nær allt koldíoxíð og brennisteinsvetni úr útblæstri virkjunarinnar sem síðan verður dælt niður í nálæg basaltberglög til varanlegrar steinrenningar með Carbfix tækninni. Þar með mun Orka náttúrunnar skipa sér í fremsta flokk grænnar jarðvarmanýtingar með sporlausri framleiðslu rafmagns og varma. Carbfix hefur þróað tækni fyrir varanlega bindingu koldíoxíðs við Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2007 í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir. Tæknin krefst einungis rafmagns og vatns og hefur starfsemin óveruleg umhverfisáhrif. Tæknin felur í sér að leysa koldíoxíð í vatni og dæla niður í basaltberggrunninn þar sem náttúruleg ferli steinrenna það til frambúðar. Með þessu móti er koldíoxíðið varanlega bundið í steindum djúpt í berggrunninum og þannig komið í veg fyrir áhrif þess á loftslagið. Einnig er hægt að beita aðferðinni fyrir aðrar gastegundir á borð við brennisteinsvetni, en það hefur einnig verið fangað frá virkjuninni og dælt niður frá árinu 2014.