3. desember 2007 Hitaveita í 100 ár: Fjöldi tillagna að útilistaverki Samorku og Mosfellsbæjar Sextán tillögur bárust að útilistaverki sem Samorka og Mosfellsbær hyggjast láta reisa á nýju torgi við Þverholt í Mosfellsbæ. Tilefni samkeppninnar eru 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem miðast við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2007. Samkeppnin er tvískipt. Forvalsdómnefnd hefur nú valið þrjár tillögur og hefur höfundum þeirra verið boðið að þróa þær áfram gegn þóknun. Skiladagur er 21. desember og verða úrslit kynnt eigi síðar en 9. janúar 2008. Í samkeppnisreglum keppninnar segir meðal annars að Samorka vilji á þessum tímamótum einkum beina sjónum fólks að því mikilvæga hlutverki sem heita vatnið hefur gegnt í því skyni að bæta heilsufar og almenn lífsgæði Íslendinga. Er þá horft til þátta á borð við betur kynt hýbýli og því bætt heilsufar, hreinna andrúmsloft (í stað kola- og/eða olíureyks), sundlaugamenningu og þar með aukin tækifæri til útivistar, hreyfingar og félagslífs. Fram kemur að sameiginlega leiti Samorka og Mosfellsbær eftir gerð listaverks sem vísa myndi í þessa sögu, þetta hlutverk heita vatnsins, og að tenging við sögu Mosfellssveitar væri ákaflega vel við hæfi. Niðurstöðu forvalsdómnefndar Mosfellsbæjar og Samorku má lesa hér. Samkeppnisreglur keppninnar má lesa hér.