24. apríl 2020 Íslenskt- gjörið svo vel: Sameiginlegt átak stjórnvalda og atvinnulífsins Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hafa undirritað samning um sameiginlegt kynningarátak stjórnvalda og atvinnulífs um að verja störf og auka verðmætasköpun undir heitinu: Íslenskt – gjörið svo vel. Framkvæmdastjórar samtaka í atvinnulífinu við undirskriftina í dag Að samningnum standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök fjármálafyrirtækja, Samorka og Bændasamtök Íslands. Markmið samningsins er að móta og hrinda í framkvæmd sameiginlegu kynningarátaki sem miðar að því að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlend fyrirtæki á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Með því verði lögð áhersla á mikilvægi þeirrar keðjuverkunar og þeirri hringrás sem verður til við val á m.a. innlendri framleiðslu- og þjónustustarfsemi sem stuðlar að því að atvinnustarfsemi helst gangandi, störf almennings eru varin, efnahagslegur stöðugleiki eykst og verðmætasköpun er aukin. Ríkið leggur 100 milljónir kr. til verkefnisins sem verður nýtt í fjármögnun á hönnun, framleiðslu og birtingu kynningarefnis. Grunnur samningsins er það fordæmalausa ástand sem uppi er í heiminum vegna útbreiðslu COVID-19 og þau áhrif sem faraldurinn hefur haft hér á landi. Átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19 en með átakinu verður unnið gegn efnahagslegum samdrætti vegna heimsfaraldursins með það fyrir augum að lágmarka áhrifiná atvinnulíf, til skemmri og lengri tíma. „Með þessu framlagi og samstarfi kynnum við og minnum á ágæti íslenskrar framleiðslu. Það er nauðsynlegt að lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg og milda höggið af COVID-19 sem er óhjákvæmilegt,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra „Við þurfum nú sem aldrei fyrr að standa vörð um íslenska framleiðslu og þjónustu. Með þessu framlagi stjórnvalda tökum við höndum saman við atvinnulífið við að sporna gegn áhrifum COVID-19,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. „Það er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf snúi bökum saman nú þegar efnahagslífið er að ganga í gegnum miklar þrengingar vegna COVID-19. Með þessu kynningarátaki vilja Samtök atvinnulífsins, sex aðildarfélög SA og Bændasamtökin leggja sitt af mörkum til að hvetja landsmenn til að velja fjölbreyttar vörur og þjónustu af innlendum fyrirtækjum,“ segir Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Ráðherrarnir og samningsaðilar undirrituðu samninginn rafrænt, en hittust öll á fjarfundi til að innsigla samkomulagið. Á fjarfundabúnaði voru auk ráðherranna: Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Jón Ólafur Halldórsson, formaður SVÞ, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku og Gunnar Þorgeirsson formaður BÍ.