10. febrúar 2020 Hálendisþjóðgarður og orkuauðlindir þjóðarinnar Grein eftir Ingibjörgu Ólöfu Ísaksen og Helga Jóhannesson: Í grein sem umhverfisráðherra skrifar í Vikudag þann 16. janúar sl. fjallar hann um drög að frumvarpi um hálendisþjóðgarð og setur m.a. fram spurninguna „Hvað með virkjanir?“. Þar kemur ráðherra inn á að virkjanir hafi verið bitbein stjórnmála og samfélagslegrar umræðu og nú sé reynt að sætta þau sjónarmið með því að virða leikreglur laga um vernd- og orkunýtingu, svokallaðar rammaáætlanir. Hér á ráðherrann við rammaáætlun þrjú sem að líkindum mun koma fram á Alþingi á þessum vetri. Í rammaáætlun þrjú er aðeins einn orkunýtingarkostur innan vænts hálendisþjóðgarðs sem er í nýtingarflokki. Um er að ræða orkukostinn Skrokköldu með um 45 MW afl, af orkukostum upp á rúmlega 2000 MW sem voru til umfjöllunar í rammaáætlun þrjú og falla innan marka hálendisþjóðgarðs. Aðrir kostir eru í bið- eða verndarflokki. Það kemur fram í skrifum umhverfisráðherra að eigi að færa verkefni úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar þrjú, verði það gert á forsendum þjóðgarðsins. Því er ekki hægt að búast við miklu, ef einhverju, til viðbótar síðar í nýtingarflokk ef rammaáætlun þrjú verður samþykkt óbreytt. Í verkferli er nú rammaáætlun fjögur og í framtíðinni var, og er gert ráð fyrir, að fleiri áfangar komi fram. Því er enn ekki komin fram nein endanleg sýn á hversu stór orkuauðlind Íslendinga er á hálendinu en vafalítið er það orkuríkasta svæði landsins Það er í hæsta máta einföldun að tala um virkjanir sem hlutlægan og sérstæðan hlut. Virkjun er bara birtingarmynd þess að þjóðfélagið er að nýta orkuauðlind í efnahagslegu samhengi, til að að þjóna þörfum heimila og atvinnulífs í landinu. Í stóru myndinni, fyrir okkur Íslendinga, snýst málið um það hvort breyta eigi landnotkun hálendisins þannig að lokað verði fyrir aðgengi þjóðarinnar að orkuauðlindum sínum um alla framtíð. Það er einnig í hæsta máta óeðlilegt og óráðlegt að lokað sé á mögulega orkunýtingu á hálendi Íslands áður en lokið er gerð orku- og orkuöryggisstefnu fyrir Ísland. Ljóst er að þörfin fyrir orku fer vaxandi eftir því sem samfélagið stækkar, auk þess sem huga þarf að nægu framboði af innlendri grænni orku fyrir orkuskiptin sem stefnt er að. Við sem störfum í orku- og veitugeiranum teljum okkur skylt að draga ofangreinda staðreynd fram. Við erum ekki að virkja virkjananna vegna, heldur vegna þeirra samfélagslegu og efnahagslegu áhrifa sem nýting orkuauðlinda skapar fyrir þjóðarbúið. Enda hefur hagnýting okkar endurnýjanlegu orkuauðlinda lagt grunninn að lífsgæðum og verðmætasköpun í landinu síðustu hundrað árin. Það koma kynslóðir á eftir okkur sem þurfa og vilja hafa tækifæri til að nýta landið á sinn hátt m.a. af efnahagslegum ástæðum. Þá er rétt að minna á það framlag sem orkuauðlindir í vatnsafli og jarðvarma skapa til hnattrænna loftlagsmála. Annað er að umræðan um hálendisþjóðgarð hefur ekki náð að þróast og er keyrð fram í flýti. Það er þekkt erlendis að þjóðgarðar eru flokkaðir í svæði þar sem mismikil friðun á sér stað, allt eftir verðmætamati þeirrar náttúru sem friða á og þörfum viðkomandi þjóða fyrir atvinnustarfsemi og hagnýtingu auðlinda á þeim svæðum. Í fyrstu umræðum um þjóðgarð var þess alltaf getið að svo myndi einnig verða innan vænts þjóðgarðs en eins og fram kemur í grein ráðherrans er hér verið að draga línu í sandinn gegn mögulegri framtíðarnýtingu orkuauðlinda. Hér er um veigamikla stefnubreytingu í landnotkun að ræða því hátt í 70% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar í dag eru upprunnin innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs. Ekki er rétt að draga þá mynd upp að þetta sé barátta á milli þeirra sem vilja friða, eða breyta landnotkun hálendisins, og þeirra sem vilja virkja. Það er of mikil einföldun því öll viljum við náttúrunni hið besta. Það er réttmætt og eðlilegt, þegar svo mikið er í húfi sem hér, að benda löggjafanum á ofangreint svo þingmenn taki ákvörðun um breytta landnotkun hálendisins með „opin augu“ og með framtíðarkynslóðir Íslendinga í huga. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. febrúar.