31. október 2008 Niðurgreidd raforka til garðyrkjubænda Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu: Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins á miðvikudag kom enn og aftur fram sú skoðun að rétt væri að garðyrkjubændur fengju raforku á sama verði og stóriðjufyrirtæki greiða. Þetta hljómar eflaust vel, öll viljum við hag garðyrkjunnar sem mestan. Hins vegar eru garðyrkjubændur í þeirri stöðu að fá nú þegar verulegar niðurgreiðslur úr ríkissjóði á raforku til lýsingar, samkvæmt samningi við landbúnaðarráðuneytið. Aðrar niðurgreiðslur úr ríkissjóði vegna raforkunotkunar snúa annars vegar að húshitun þar sem ekki er aðgangur að hitaveitu, og hins vegar að kostnaði við dreifingu á raforku á tilteknum svæðum. Engar aðrar atvinnugreinar njóta ríkisstuðnings við raforkukaup líkt og garðyrkjubændur. Tillaga um að garðyrkjubændur njóti sama raforkuverðs og stóriðja er því í raun tillaga um frekari niðurgreiðslur frá hinu opinbera við þessa tilteknu atvinnugrein. Garðyrkjubændur eru góðir viðskiptavinir raforkufyrirtækja og auðvitað myndu þeir gjarnan vilja fá enn lægri verð. Öll myndum við gjarnan vilja fá lægri verð í okkar innkaupum. Garðyrkjubændur hér á landi greiða raunar miklum mun lægra raforkuverð en keppinautar þeirra í nágrannalöndunum gera, og þarf ekki fyrrnefndar niðurgreiðslur til. Hins vegar eru engar viðskiptalegar forsendur fyrir því að bera saman raforkuverð til garðyrkjubænda annars vegar og til stóriðju hins vegar. Stöðug raforkukaup stóriðjuSæmilega stór garðyrkubóndi kaupir ekki einn þúsundasta hluta af þeirri raforku sem meðalstórt álver kaupir. Þá kaupir stóriðjan raforkuna í 24 klukkustundir á sólarhring og 365 daga á ári, alls 8.760 klukkustundir á ári, skuldbundið til margra ára og jafnvel til áratuga. Garðyrkjubændur undirgangast engar slíkar skuldbindingar. Þeir nota gjarnan raforku til lýsingar í um 5.500 klukkustundir á ári. Raforku þarf að nota jafnóðum og hún er framleidd, en rekstur virkjananna er ekki mjög kostnaðarsamur hér á landi (ólíkt því sem er víða erlendis, þar sem kolum eða olíu er brennt til að framleiða raforku). Þess vegna eru mikil verðmæti í þessum stóru sölusamningum við stóriðjufyrirtækin. Ennfremur ber að nefna að dreifingin er jafnan um þriðjungur af raforkuverði til fyrirtækja og heimila. Stóriðjan tekur hins vegar við orkunni beint af flutningskerfinu og greiðir því sjálf dreifingarkostnaðinn. Loks skal minnt á að það hér að þótt leynd hvíli yfir sjálfu raforkuverðinu til stóriðjufyrirtækjanna, þá gildir sú leynd um ýmis fleiri fyrirtæki og stofnanir hér á landi sem leitað hafa tilboða og gert samninga um sín raforkukaup. Slík leynd er algenga reglan um innihald viðskiptasamninga, líka hjá öðrum fyrirtækjum í opinberri eigu. Arðsemi þessarar raforkusölu til stóriðju er hins vegar góð, og þær upplýsingar skipta eigendur orkufyrirtækjanna mestu.