20. febrúar 2009 Krafa um 15-20% samdrátt í losun fyrir 2020? Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, fjallaði um loftslagsbreytingar og orkunýtingu í erindi á aðalfundi Samorku. Pétur fjallaði m.a. um hækkandi hitastig jarðar síðustu aldir, aukna losun gróðurhúsalofttegunda og um mikilvægi þess að draga úr þeirri losun, þótt hann varaði við svonefndum heimsendaspám í þessum efnum. Lang stærsta hluta losunarinnar má rekja til brennslu á jarðefnaeldsneytum (olía, kol og gas). Pétur sagði ljóst að gríðarlegt átak þyrfti í orkumálum heimsins til að ná niður útstreymi gróðurhúsalofttegunda, og að það yrði afar kostnaðarsamt. Bætt orkunýting, kjarnorka, kolefnisförgun og aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa eru helstu leiðirnar í þessum efnum. Að óbreyttu mun heildarlosun frá orkuvinnslu tvöfaldast á árunum 2000 til 2030, og mun aukningin nánast öll eiga sér stað í þróunarlöndum á borð við Kína og Indland. Hér á landi er nánast ekkert útstreymi vegna vatnsaflsvirkjana og hverfandi lítið vegna jarðvarmavinnslu. ESB-reglur þegar í gildi hér Pétur greindi frá því að viðskiptakerfi ESB með loftslagsheimildir er þegar orðinn hluti af EES-samningnum. Frá og með árinu 2013 þurfa þannig orkufyrirtæki að afla sér losunarkvóta af uppboði fyrir hvers kyns losun gróðurhúsalofttegunda, en grænu vottorðin sem sum íslensk raforkufyrirtæki hafa verið að selja munu koma þar á móti. Jafnvel er talið að hitaveitur muni hugsanlega fá einhvern aðgang að þeim markaði. Almennt eru markmið einstakra ríkja um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda miðuð við landsframleiðslu. Á vettvangi loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna er stefnt að því að ná samkomulagi um framhald svokallaðrar Kyoto-bókunar í lok þessa árs. Miðað við núverandi forsendur á vettvangi ESB má ætla að Ísland muni þurfa að takast á hendur skuldbindingar um 15-20% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020 (í almennu útstreymi, en þar verða stóriðja, flutningar o.fl. utan við), þar sem miðað er við losun árið 2005. Hér á landi verða eingöngu 4% losunarinnar rakin til rafmagns og hita og því ljóst að þetta krefjandi verkefni snýr að takmörkuðu en þó einhverju leyti að íslenskum orkufyrirtækjum. Hérlendis verða annars 41% losunar rakin til iðnaðar og efnanotkunar, 23% til samgangna, 15% til sjávarútvegs, 12% til landbúnaðar og 5% til úrgangs. Sjá erindi (glærur) Péturs Reimarssonar.