Formaður Samorku: Óábyrgt að virkja ekki meira

Aðalfundur Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, Grand Hótel, 19. febrúar 2010
Setningarávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku, í opinni dagskrá

Iðnaðarráðherra, aðrir góðir gestir,

Ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin til þessarar opnu dagskrár aðalfundar Samorku. Hér í salnum er, auk góðra gesta, saman kominn hópur fólks sem starfar við nýtingu okkar ríku náttúruauðlinda sem felast í fallvötnum, jarðhita og afburða ferskvatni. Á dögunum komust sérfræðingar Yale og Columbia háskólanna í Bandaríkjunum að þeirri niðurstöðu að Ísland stæði sig best allra ríkja á sviði umhverfismála. Er þar ekki síst horft til góðs aðgangs að hreinu drykkjarvatni og til þeirrar hreinu orku sem hér er unnin úr vatnsafli og jarðhita. Við sem störfum að þessum viðfangsefnum gleðjumst auðvitað yfir slíkum viðurkenningum. Íslenska þjóðin býr að stórkostlegum náttúrugæðum í þessu tilliti og okkur hefur borið gæfu til að nýta þessi gæði á skynsaman hátt og með virðingu fyrir náttúrunni.

Nauðsynlegt er að leiðrétta þann misskilning sem örlar á m.a. hjá sjálfum umhverfisráðherra landsins, sem í  blaðaviðtali lýsti efasemdum um að nýting vatnsafls og jarðhita feli í sér sjálfbæra orkunýtingu. Veröldin skilgreinir vatnsafl og jarðhita sem endurnýjanlega orkugjafa og sú skilgreining er rétt og engum efa undirorpin. Að halda öðru fram er einvörðungu vatn á millu þeirra sem framleiða og selja jarðefnaeldsneyti. Orkuforðinn í jarðskorpunni er nánast óendanlegur og gæti staðið undir allri núverandi orkunotkun jarðarbúa í tíu þúsund ár. Að vísu er enn ekki tæknilega gerlegt að vinna nema lítinn hluta þessarar orku  sem þegar af þeirri ástæðu er sjálfbær. Orkan í fallvötnunum er einnig sjálfbær en úr vinnslugetunni gæti dregið hérlendis ef jöklar bráðna alveg á næstu öldum.  Séu menn að vitna í það þegar efast er um sjálfbærnina er því til að svara að þeim mun nauðsynlegra er að beisla þessa orku strax í stað þess að láta hana renna ónotaða til sjávar. Það er fullkomlega óábyrgt að halda ekki áfram virkjun jarðhita og fallvatna, til raforkuframleiðslu fyrir orkufrek iðjuver, nú þegar þörf er á að auka gjaldeyristekjur og atvinnu.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í síðustu viku að Landsvirkjun ætli að hefja að nýju framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Þetta eru að sönnu ekki stórar framkvæmdir en betri en ekkert. Þá bárust í vikunni jákvæðar fréttir af undirritun samningsramma um orkusölu til nýs kísilvers sem áformað er að reisa í Þorlákshöfn og hyggst Orkuveita Reykjavíkur reisa til þess nýja jarðhitavirkjun í Hverahlíð, fáist til þess fjármögnun á nógu góðum kjörum. Í janúarlok var undirritaður rammasamningur milli Akureyrarbæjar og Strokks Energy ehf. vegna koltrefjaverksmiðju á Akureyri. Það sem mesta athygli vekur í þessum rammasamningi er að gert er ráð fyrir að verksmiðjan noti verulegt magn af metangasi sem ætlunin er að vinna úr sorphaugum á Glerárdal og leiða beint í verksmiðjuna. Það er auðvitað svo að fjármögnun framkvæmda er mjög erfið fyrir okkur Íslendinga nú um stundir og nauðsynlegt að fá erlenda fjárfesta að framkvæmdum á orkusviði. Slíkir fjárfestar eru til en ég óttast að þeim fari fækkandi vegna þess að þær móttökur sem þeir fá á æðstu stöðum eru oftar en ekki til þess fallnar að fæla fjárfesta frá landinu. Sama má segja um ráðstafanir eins og þá að skattlegja raforkunotkun með beinum hætti og að úrskurða á æðstu stöðum um aukið eða samþætt umhverfismat og fleira því tengt án þess að til þess standi lagaleg skylda. Erlend fjárfesting er líklega mikilvægari nú en nokkru sinni fyrir íslenskt atvinnulíf. Við hljótum að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau vinni með atvinnulífinu á þessu sviði, en ekki gegn því. Það er hinsvegar ekki nýtt að Íslendingar óttist útlendinga, séu óráðþægnir, telji sig sérstaka og telji sig vita betur en allir aðrir jarðarbúar. Ég vitna hér á eftir til úrdráttar úr umfjöllun George H.F. Schrader sem bjó á Akureyri á árunum 1912-1915, ferðaðist auk þess um landið og kynnti sér þjóðlífið. Hann reyndi að koma á ýmsum umbótum hérlendis en fannst  Íslendingar erfiðir.

Þeir gegna því ekki, þeir þykjast kunna það alt miklu betur!!! Allt hvað lagt er til að gera, „dugir ekki á Íslandi við verðum að hafa það eins og við gerum.“ Þannig gætum vér hugsað oss, að Ísland tilheyrði allt öðrum heimi, og Íslendingar væru guðs útvalin þjóð – eða þá útskúfuð þjóð, eftir því hvort farið er eftir raupi þeirra af sjálfum sér og  öllu íslensku, eða þá eftir kveinstöfum þeirra yfir fátæktinni og jarðveginum.“ Þessi tilvitnun er úr formála eftir Ásgeir Jónsson að bókarhveri nokkru sem Schrader gaf út og heitir í þýðingu Steingríms Matthíassonar frá 1913, „Heilræði fyrir unga menn í verslun og viðskiptum“.

Eftir að hafa komið þessu á framfæri er rétt að það komi fram að Samorka hefur átt mjög gott samstarf við iðnaðarráðherra og hennar ráðuneyti og mér virðist að þar á bæ sé unnið af heilindum að orkumálum og tekið vel á móti þeim sem hingað vilja koma og hefja starfssemi. Þar er líka reynt að hafa það yfirlýsta markmið ríkisstjórnarinnar í heiðri að horfa til virkjanaframkvæmda og tengdra framkvæmda í iðnaði til að koma hér hjólum atvinnulífsins betur af stað.

Góðir fundarmenn, ég hef ekki sagt allt það sem ég vildi sagt hafa um orkuskatta. Nýir orkuskattar voru meðal annars réttlættir með vísan í einhvers konar auðlindaafgjald til þjóðarinnar, en að mestu leyti eru  þessar dýrmætu auðlindir í eigu ríkis og sveitarfélaga. Við Íslendingar höfum hins vegar til langs tíma státað af því að hér er bæði raforka og heitt vatn til kyndingar selt á  mun lægri verðum en þekkist í flestum okkar samanburðarlöndum. Orku- og veitufyrirtækin eru hins vegar flest í eigu opinberra aðila og eru í flestum tilvikum rekin með afar takmarkaðri arðsemi, að undanskilinni raforkusölu til stóriðju. Afgjaldið sem þjóðin, fólkið og fyrirtækin í landinu fær í sinn hlut af þessum dýrmætu auðlindum er þess vegna ekki fólgið í að greiða ríkissjóði nýjan skatt. Afgjaldið kemur beint í buddu landsmanna sjálfra í formi miklu lægra orkuverðs en nágrannar okkar búa við. Með því að borga kannski fjórðung af raforku- og kyndingarkostnaði t.d. frænda okkar í Danmörku, erum við að njóta góðs af okkar ríku náttúruauðlindum, í hverjum mánuði, beint í budduna. Nýi orkuskatturinn bætir ekki þarna við, heldur skerðir í raun afgjaldið til þjóðarinnar.