Magmahringekjan

Blaðagrein Franz Árnasonar, formanns Samorku:

Samorka, sem eru samtök orku-og veitufyrirtækja, hafa til þessa setið hjá í þeim dansi sem stiginn hefur verið á hinum pólitíska vettvangi að undanförnu varðandi kaup hins kanadíska fyrirtækis Magma á hlut í HS-orku, í gegnum sænskt dótturfélag. HS-orka, Orkuveita Reykjavíkur og önnur þau orkufyrirtæki sem eru aðilar að Magmaumræðunni eru öll aðilar að Samorku og því eðlilegt að Samorka láti sig málið varða. Starfsemi Samorku felst m.a. í því að tryggja,að félagar innan samtakanna starfi samkvæmt þeim lögum og reglum og því starfsumhverfi sem fyrirtækjunum er búið á hverjum tíma. Stjórnvöld og Samorka hafa átt farsælt samstarf í áranna rás varðandi umbætur á rekstrarumhverfi þessa mikilvæga málaflokks innan samfélags okkar. Því skal fullyrt að aðildarfélagar samtakanna hafa lagt metnað sinn í að starfa samkvæmt þeim lögum sem í gildi hafa verið á hverjum tíma og ekki stundað nokkur undanskot hvað það varðar.

Farið að lögum
Því er það mjög óþægilegt, svo ekki sé fastar kveðið að orði, að verða vitni að því hvernig rætt er um orkufyrirtækin sem koma að Magmamálinu og þeim núið um nasir lögbrotum og óeðlilegum starfsháttum. Innan samtakanna sjá menn ekki annað en að við sölu á hlutum í HS Orku hf. hafi verið farið eftir þeim lögum sem gilda um mál af þessu tagi. Ef lögin eru gölluð eða samrýmast ekki þjóðarvilja þá er það löggjafans að  breyta lögunum. Þó skal haft í huga að slíkar lagabreytingar má ekki gera eftir dagspöntunum þegar einstökum þegnum eða þingmönnum finnast lögin ósanngjörn og umræða um afturvirk lög á aldrei rétt á sér.

Í Magmamálinu hafa allar staðreyndir legið fyrir í marga mánuði og lagaramminn hefur verið fyrir hendi. Aðdragandinn er líka það langur og ferlið allt á þann veg að stjórnvöld hafa haft fulla vitneskju um málsatvik og því oft haft tækifæri til að koma þar að, annað hvort sem kaupendur eða með því að breyta lögum í tæka tíð. 

Auðlindin áfram í opinberri eigu
Margsinnis hefur komið fram að hér er ekki verið að selja auðlind. Hér er um að ræða að leigja aðgang til nýtingar á auðlind um ákveðin tíma. Auðlindin  verður áfram  í eigu opinberra aðila sem njóta munu afraksturs af þeirri eign auk þess sem nýtingin er undir ströngu eftirliti Orkustofnunar. Einu gildir í raun í þessu sambandi hvort orkuframleiðandinn er í opinberri eigu, innlendur eða erlendur. Ríkið setur lagarammann og ríkið stýrir nýtingunni í raun, t.d. í gegnum virkjunarleyfisskilmála hverju sinni.

Bent hefur verið á að æskilegt hefði verið að innlendir aðilar hefðu keypt fala hluti í HS-orku og hafa lífeyrissjóðir landsmanna verið nefndir. Víst er um að lífeyrissjóðirnir skoðuðu málið vandlega en féllu frá hugmyndinni. Við getum velt fyrir okkur ástæðunum, en skyldi ástæðan vera sú að arðurinn af rekstri orkufyrirtækja sé ekki slík auðsuppspretta sem stundum er látið í veðri vaka?

Eitt er víst að ef ætlunin er að nýta orkuauðlindirnar til framfara fyrir borgara þessa lands, þá þarf að virkja þær.  Orkulind skapar ekki arð og atvinnu nema hún sé virkjuð. Til að virkja orkuauðlindir þarf fjármagn sem tæpast er tiltækt hjá ríkissjóði eða öðrum innlendum aðilum og því er erlent fjármagn nauðsynlegt. Nú hefur erlendur aðili, sem sérhæfir sig á þessu sviði, gefið sig fram og er tilbúinn til að taka þátt í uppbyggingunni, samkvæmt íslenskum lögum, og taka áhættuna sem því fylgir. Þeim mun undarlegra er að þegar svo er komið skulu nokkrir alþingismenn og jafnvel ráðherrar gera  því skóna að æskilegt og jafnvel nauðsynlegt sé að stöðva þetta ferli.

Áhrif á orðspor Íslands
Það er ef til vill ekki í verkahring samtaka á borð við Samorku að segja stjórnvöldum fyrir verkum en með hliðsjón af því góða samstarfi sem ávallt hefur ríkt milli þessara aðila, þá er ekki óeðlilegt að samtökin vari við afleiðingunum þess að grípa til óyndisúrræða. Síkur gjörningur hefur ekki bara áhrif á þetta ákveðna kanadíska fyrirtæki, heldur mun þetta hafa áhrif á orðspor okkar sem ekki er of gott fyrir. Aðrir erlendir aðilar sem  kunna að vera tilbúnir til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi í framtíðinni munu hugsa sinn gang ef farið verður offari af hálfu stjórnvalda í þessu máli.