23. janúar 2019 Dreifing sólarorkulampa heldur áfram Í dag, 23. janúar, er degi rafmagnsins fagnað á Norðurlöndunum. Rafmagn er sjálfsagt og aðgengilegt í daglegu lífi okkar Íslendinga, svo það er auðvelt að gleyma því að um það bil 1,3 milljarður manna býr við takmarkað aðgengi að því í heiminum. Í tilefni af degi rafmagnsins hefur Samorku tvö ár í röð staðið fyrir fjármögnun og dreifingu sólarorkulampa í Afríku í samvinnu við sænska fyrirtækið Givewatts. Markmið Givewatts er að gefa fjölskyldum í Kenýa og Tansaníu kost á því að fjárfesta í hreinni og ódýrri orku í formi sólarorkulampa í stað steinolíulampa við leik og störf. Samorka hefur nú fjármagnað alls 320 lampa, sem munu bæta lífsgæði um 1.600 manns, þar sem að meðaltali nýta fimm einstaklingar sér hvern lampa á hverju heimili. Hér má sjá nýtt myndband frá Givewatts um áhrif sólarorkulampa á fjölskyldulífið á svæðum þar sem aðgengi að lýsingu á heimili er takmarkað. Impact: Family time from GIVEWATTS on Vimeo. Starfsmaður Givewatts heimsækir skóla í Vihiga Lamparnir frá Samorku eru í dreifingu í þorpinu Vihiga í Kenýa og Mwanza í Tansaníu. Eins og sjá má hefur dreifing lampanna gengið hægar en vonast var eftir, þar sem efnahagsástandið á svæðunum var ekki gott á síðari hluta ársins 2018 vegna slæmrar uppskeru, en vonast er til þess að hún taki kipp á nýju ári. Givewatts hefur ráðið í stöðu sölustjóra og almennan starfsmann yfir Vihiga svæðinu í Kenýa, sem er nýtt svæði hjá þeim. Þá eru fleiri starfsmenn í þjálfun og fræðslu, svo hægt sé að efla kynningu á lömpunum og kostum endurnýjanlegrar orku í stað steinolíulampa. Þannig er vonast til að dreifing lampanna komist á skrið að nýju. Hér má lesa frekari upplýsingar um fjármögnun lampanna á degi rafmagnsins 2017 og 2018.