18. febrúar 2011 Áform um styttingu á leigutíma orkuauðlinda, en liðkað fyrir endurnýjun leigusamninga Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra ávarpaði aðalfund Samorku. Fagnaði hún nýundirrituðum samningum um byggingu nýs kísilvers í Helguvík og fjallaði jafnframt um miklar endurbætur og uppfærslu hjá álveri Rio Tinto í Straumsvík og fjármögnun Landsvirkjunar í Búðarhálsvirkjun. Sagði Katrín þessar framkvæmdir marka ákveðinn vendipunkt í fjárfestingum í íslensku atvinnulífi. Þá sagði Katrín unnið að gerð frumvarps til laga um styttingu á leigutíma orkuauðlinda, og að haft yrði samráð við Samorku og aðildarfyrirtæki samtakanna í þeirri vinnu. Hún sagði einnig skoðaða möguleika á að liðka fyrir endurnýjun gildandi leigusamninga, enda væru viðkomandi orkufyrirtæki að ganga vel um auðlindina. Ennfremur fjallaði Katrín drög að orkustefnu, erlenda eftirspurn eftir sérþekkingu Íslendinga í nýtingu orkuauðlinda, samningaviðræður við Magma Energy um styttingu á leigutíma á orkuauðlindum á Reykjanesi, mikilvægi vinnunar við gerð rammaáætlunar sem hún sagðist nú sjá fyrir endan á, væntanlegt frumvarp til breytinga á vatnalögum, frumvarp til breytinga á raforkulögum, mikilvægi aukins hlutar grænnar orku í samgöngum o.fl. Katrín þakkaði loks Samorku fyrir gott samstarf í ýmsum málum og sagðist treysta á áframhald þess góða samstarfs. Erindi Katrínar er væntanlegt á vef iðnaðarráðuneytisins.