Aðalfundur Samorku: Vonbrigði með stöðu rammaáætlunar

Ályktun aðalfundar Samorku, 17. febrúar 2012:

 

Vonbrigði með stöðu rammaáætlunar

Aðalfundur Samorku lýsir yfir vonbrigðum með stöðuna og ferlið við gerð þingsályktunar um vernd og orkunýtingu náttúrusvæða – rammaáætlun. Samorka gagnrýndi á sínum tíma ýmsar breytingar sem urðu á forsendum verkefnisstjórnar, þar sem fjöldi orkukosta var útilokaður frá nýtingarflokki. Samtökin fögnuðu þó faglegum niðurstöðum af áralöngu starfi verkefnisstjórnar í júní 2011. Í því faglega ferli höfðu sjónarmið um náttúruvernd mikið vægi og almenningur fékk ítrekuð tækifæri til að setja fram sjónarmið, sem í kjölfarið voru metin á faglegan hátt í vinnu verkefnisstjórnar. Var það von Samorku að þessi ágæta vinna gæti orðið grundvöllur fyrir aukinni sátt um orkunýtingu og verndun. Miklar tafir hafa nú orðið á þessu ferli, með tilheyrandi óvissu. Í drögum að tillögu til þingsályktunar sem kynnt voru í ágúst hafði verið vikið frá faglegri forgangsröðun verkefnisstjórnar og niðurstöður hennar eru nú staddar öðru sinni í ógegnsæju samningaferli á vettvangi stjórnvalda.

Stærð einstakra flokka og röðun í þá er að sjálfsögðu ákvörðun Alþingis. Að mati Samorku væri hins vegar vænlegast að styðjast einfaldlega við faglega röðun verkefnisstjórnar frá því í júní 2011. Sú leið ætti að mati samtakanna að geta stuðlað að nokkuð víðtækri sátt um rammaáætlun. Fundurinn minnir jafnframt á að Íslendingar hafa nú þegar stigið mjög stór skref til verndar náttúru landsins og t.d. gengið mun lengra en hin Norðurlöndin í þeim efnum.

Auðlindamálin ekki til umhverfisráðuneytis
Þá ítrekar aðalfundur Samorku andstöðu samtakanna við hugmyndir um að færa auðlindarannsóknir og auðlindastýringu undir umhverfisráðuneytið. Það væri að mati Samorku óeðlileg stjórnsýsla að sama ráðuneyti gegndi lykilhlutverki varðandi rannsóknir og nýtingu annars vegar, og færi með umhverfismat og skipulagsmál hins vegar.