22. febrúar 2013 Ályktun aðalfundar Samorku: Miklar fjárfestingar framundan – hámörkun arðsemi Ályktun aðalfundar Samorku: Miklar fjárfestingar framundan – hámörkun arðsemi Miklar fjárfestingar eru framundan við flutningskerfi raforku, sem þörf er á að efla og endurnýja. Á sama tíma hafa komið fram kröfur um að farin verði leið jarðstrengja í stað loftlína, sem á svo hárri spennu er alla jafna miklum mun dýrari framkvæmd. Aðalfundur Samorku minnir á að verulegur kostnaður við nauðsynlega endurnýjun flutningskerfisins birtist í reikningum til heimila, fyrirtækja og stofnana. Allar ákvarðanir um að fara leiðir sem fela í sér tugi milljarða króna í viðbótarkostnað munu óumflýjanlega endurspeglast í hærri reikningum til sömu aðila. Þá hvetur Samorka til þess að hérlendis fari fram víðtæk og opin umræða um leiðir til hámörkunar á arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku. Athygli vekur að Norðmenn telja sín tækifæri af sölu endurnýjanlegrar orku jafn verðmæt og af sölu á olíu, en hérlendis er orkugetan í endurnýjanlegri orku þreföld á hvern íbúa miðað við Noreg. Íslendingar búa því að gríðarlegum tækifærum á þessu sviði. Vonbrigði með rammaáætlun Aðalfundur Samorku lýsir yfir vonbrigðum með niðurstöðu Alþingis um rammaáætlun, sem víkur í veigamiklum atriðum frá faglegri niðurstöðu verkefnisstjórnar. Margir hagkvæmustu og best rannsökuðu orkukostirnir, sem verkefnisstjórn raðaði ofarlega út frá sjónarhorni nýtingar, höfnuðu ýmist í biðflokki eða verndarflokki. Vandséð er að sátt geti orðið um þessa niðurstöðu, að mati Samorku.