24. nóvember 2017 Lokaáfanganum náð í skólphreinsun á höfuðborgarsvæðinu Nýja stöðin var tekin í notkun fimmtudaginn 23. nóvember 2017. Ný hreinsistöð skólps á Kjalarnesi hefur tekin í notkun. Þar með er allt þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu tengt við hreinsistöðva og því risavaxna verkefni, sem uppbyggingarátak fráveitu höfuðborgarinnar hefur verið frá árinu 1995, er lokið. Hreinsun strandlengjunnar í kjölfarið hefur verið nefnd stærsta skref í umhverfishreinsun sem stigið hefur verið hér á landi. Hönnun hreinsistöðvarinnar á Kjalarnesi hófst 2006 og var smíði hennar boðin út í áföngum 2007 og 2008. Á árunum 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Hrunið og slæm fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur á þessum tíma varð svo til þess að framkvæmdum var frestað. Þær hófust svo aftur með lagningu sjólagnar árið 2015. Stöðin þjónar íbúum Grundahverfis þar sem búa á sjötta hundrað manns. Hreinsistöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um kílómetra út í sjó. Veitur buðu Kjalnesingum og öðrum Reykvíkingum að skoða nýju stöðina þegar hún var tekin í notkun og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ávarpaði gesti ásamt Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna. Borgarstjóri óskaði Kjalnesingum til hamingju með nýju hreinsistöðina Inga Dóra kynnir nýju trektina frá Veitum, sem ætlað er að auðvelda fólki að safna og endurvinna olíu frá matargerð í stað þess að hella henni í fráveituna Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum