21. maí 2014 Meirihluta raflína í jörðu, á lágri spennu Ef horft er samantekið til allra sex dreifiveitna raforku á Íslandi er meirihluti kerfisins á lágri spennu (33 kV og minna, alls 11.267 km) nú þegar í formi jarðstrengja, eða 54%, og nær allar nýframkvæmdir og viðhald á kerfinu er lagt í jarðstrengjum. Ef horft er til kerfisins í heild (14.483 km) eru hins vegar 57% í loftlínum, en 96% kerfisins á hærri spennu (66 til 220 kV) er í loftlínum. Þetta kom m.a. fram í erindi Péturs E. Þórðarsonar hjá RARIK á vorfundi Samorku (sjá glæru 13). Alls spannar flutnings- og dreifikerfi raforku 14.483 km. Frá því um og uppúr 1980 hafa aðstæður breyst verulega hvað varðar gæði jarðstrengja og kostnað við lagningu þeirra, á lágri spennu. Öðru máli gegnir enn um línur og strengi á hærri spennu, en alla jafna er miklum mun kostnaðarsamara að leggja slík kerfi í jörðu auk þess sem tæknilegar áskoranir geta verið meiri og umhverfisrask raunar einnig (sbr. þegar grafa þarf nokkurra metra breiða skurði gegnum hraun). Landsnet, sem rekur flutningskerfi raforku (á hárri spennu), horfir þess vegna til Alþingis um leiðsögn varðandi viðmið um val milli loftlína og jarðstrengja. Samkvæmt raforkulögum er fyrirtækinu ætlað að byggja flutningskerfið upp með hagkvæmni að leiðarljósi. Allar líkur virðast hins vegar á því að kostnaður muni fara lækkandi á lagningu a.m.k. 66 kV og væntanlega 132 kV jarðstrengja, í allnáinni framtíð.