6. nóvember 2014 Rammaáætlun: Sex orkukostir fari aftur í nýtingarflokk Samorka styður í umsögn sinni tillögu til þingsályktunar þess efnis að orkukosturinn Hvammsvirkjun verði færður úr biðflokki rammaáætlunar aftur í nýtingarflokk, þar sem hann var áður flokkaður fyrir afgreiðslu Alþingis í janúar 2013. Samorka beinir því jafnframt til Alþingis að ályktað verði um að snúa aftur til faglegrar niðurstöðu fyrri verkefnisstjórnar og færa alla þá sex orkukosti sem Alþingi færði úr nýtingarflokki í biðflokk, þvert á faglegar niðurstöður verkefnisstjórnar, til baka í nýtingarflokk. Jafnframt verði ályktað þess efnis að núverandi verkefnisstjórn ljúki því verkefni sem henni var falið í skipunarbréfi, að forgangsraða vinnu við þá tvo aðra kosti sem jafnframt var fjallað um sérstaklega í nefndaráliti þáverandi meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis við afgreiðslu málsins í janúar 2013. Til vara gerir Samorka tillögu um að Alþingi beini því til verkefnisstjórnar að ljúka hið fyrsta umfjöllun um alla framangreinda átta kosti, sbr. fyrrnefnt nefndarálit og skipunarbréf ráðherra. Loks gerir Samorka tillögu um að í framhaldinu verði vinnu verkefnisstjórnar forgangsraðað þannig að fjallað verði um þá kosti sem best hafa verið rannsakaðir og lengst eru komnir í undirbúningi, í ljósi þess tímahraks sem vinnan er komin í. Sjá nánar í umsögn Samorku um þingsályktunartillöguna.