3. desember 2014 Aftur í átt til sáttar Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Aftur í átt til sáttar Fregnir af því að meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis hyggist leggja til að átta orkukostir verði færðir úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar hafa sums staðar vakið hörð viðbrögð. Því er jafnvel haldið fram að með þessu verði rofin „sátt“ um þennan málaflokk. Sú sátt var hins vegar rofin í ágúst 2011. Í janúar 2013 var síðan gengið enn lengra gegn meintri sátt um málaflokkinn. Tillagan sem nú er til umræðu miðar að því að færa rammaáætlun aftur í átt að þeirri sátt sem hún átti að geta orðið, eftir að verkefnisstjórn 2. áfanga skilaði sínum faglegu niðurstöðum. Eftir um átta ára faglega vinnu skilaði verkefnisstjórnin 2. áfanga af sér röðun 69 orkukosta til tveggja ráðherra í ágúst 2011. Efst var raðað þeim kostum sem taldir voru vænlegastir til orkunýtingar, neðst þeim sem helst var talin ástæða til að vernda. Í verkefnisstjórninni sátu fulltrúar mismunandi aðila og á vegum hennar störfuðu fjórir faghópar. Fagleg niðurstaða verkefnisstjórnar var forsenda sáttar. Nú átti einungis eftir að raða kostunum í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Sáttin rofin Í lokuðu ferli innan tveggja ráðuneyta var kostunum raðað í flokka. Ekki varð þó niðurstaðan þannig að efstu kostirnir færu í nýtingarflokk, neðstu í verndarflokk og afgangurinn, úr miðjunni, í biðflokk. Nei, tólf af þessum 69 kostum rötuðu á einhvern hátt niður listann. Kostir sem raðað hafði verið ofarlega (frá sjónarhorni orkunýtingar) af verkefnisstjórn höfnuðu í biðflokki, jafnvel í verndarflokki. Einn kostur sem raðað hafði verið fremur neðarlega hafnaði í biðflokki, annars færðust orkukostirnir (tólf) eingöngu niður listann. Þarna var sáttin rofin. Í janúar 2013 samþykkti Alþingi síðan sex breytingar á þeim drögum að röðun í flokka sem getið er hér að framan. Sex orkukostir voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Enginn var færður í aðra átt. Ljóst er að Alþingi fer með það vald að raða orkukostum í flokka. En forsenda sáttar um málið hlýtur að vera fólgin í því að Alþingi fylgi faglegum tillögum verkefnisstjórnar. Það var ekki gert í janúar 2013, heldur höfðu þá fyrst tólf og síðar sex kostir verið færðir niður listann, í átt frá orkunýtingu. Sú tillaga sem nú er til umræðu snýst um að hverfa aftur í átt að niðurstöðu verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar, sem byggði á faglegri vinnu til átta ára. Það væri stórt skref í átt til sáttar um málið.