8. september 2016 Samfélagslegur ávinningur af landtengingum fyrir skip Draga mætti verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum með því að gera öllum skipum sem liggja við höfn kleift að tengjast rafmagni í landi. Einnig myndu slíkar landtengingar styrkja uppbyggingu byggða við hafnarsvæði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu, sem unnin var fyrir Faxaflóahafnir, Orkuveitu Reykjavíkur, Veitur ohf. og Reykjavíkurborg. Samkvæmt Evróputilskipun skulu öll skip, sem liggja við höfn í tvo tíma eða lengur, tengja sig við rafmagn í landi ef kostur er. Ef slík tenging er ekki til staðar, skipið ekki búið tengibúnaði, eða ef höfnin ræður ekki við að þjónusta tiltekna stærð af skipum, þarf að keyra ljósavélar um borð í skipunum til að halda nauðsynlegum búnaði í gangi með tilheyrandi útblæstri og hávaðamengun. Kostnaður við að bæta landtengingar í höfnum Faxaflóahafna og gera þannig mögulegt að öll skip geti tengst þar rafmagni er um 5,5 milljarðar króna. Það myndi draga verulega úr útblæstri frá sjávargeiranum, eða um tæplega 4% og hafa þannig í för með sér verulegan ávinning fyrir samfélagið. Einnig er gert er ráð fyrir að núverandi raforkusala Faxaflóahafna myndi sjöfaldast. Nánari upplýsingar má sjá í skýrslunni sjálfri, sem umhverfisverkfræðingurinn Darri Eyþórsson vann.