17. maí 2016 Rafmagnið ódýrast á Íslandi Rafmagnsreikningur íslenskra heimila er sá langlægsti í Vestur-Evrópu, eða um 6.200 krónur á mánuði sé miðað við dæmigert heimili. Til samanburðar má nefna að sambærilegt danskt heimili greiðir 14.800 krónur á mánuði. Sé miðað við lönd innan EES greiða heimili í Búlgaríu og Ungverjalandi lægri reikning en á Íslandi og í Litháen er hann jafnhár. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat fyrir árið 2015 og miðast við heildarreikning, þ.e. raforku, skatta, flutning og dreifingu. Sé rafmagnreikningurinn sundurliðaður má sjá að skattar á raforkunotkun eru með lægsta móti hérlendis. Athygli vekur að í Danmörku, þar sem skattar eru hæstir á raforkunotkun, er oft um að ræða skatta á brennslu jarðefnaeldsneyta. Þeir eru svo nýttir til niðurgreiðslu á framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Hér á landi eru engar slíkar niðurgreiðslur til staðar, enda öll raforkuvinnsla byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Kostnaður við flutning og dreifingu raforku á Íslandi er nálægt meðaltalskostnaði í Evrópu, þrátt fyrir strjálbýli og krefjandi línuleiðir víða. Dæmigert íslenskt heimili borgar 3.100 krónur á mánuði fyrir flutning og dreifingu raforku á meðan sambærilegt evrópskt heimili greiðir til þess 2.600 krónur. Norðmenn búa nú við ódýrustu raforkuna, sem er breyting frá því sem verið hefur og skýrist meðal annars af gengi norsku krónunnar, sem veiktist töluvert árið 2015. Íslendingar borga næstminnst fyrir raforku.