26. maí 2016 Þrengt að orkuöryggi úr öllum áttum Orkuöryggi var lykilhugtakið í ræðu Helga Jóhannessonar, formanns Samorku, við upphaf um 150 manna fagfundar samtakanna í Reykjavík í dag. Helgi vakti m.a. athygli á því að stöndug iðnfyrirtæki á Norðurlandi geti ekki stækkað starfsemi sína og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ekki skipt úr olíubræðslu í vistvæna raforku. Þá ræddi hann skerðingar í raforkuafhendingu, vaxandi eftirspurn eftir raforku en lítið framboð og sagði suma af hagkvæmustu virkjanakostunum hafna í verndarflokki rammaáætlunar. Helgi sagði óljóst hver ef nokkur bæri ábyrgð á að landsmenn fái ávallt nægt rafmagn til almennra heimilisnota, eða að þörfum atvinnulífsins væri sinnt: „Við upplifum mikla eftirspurn eftir raforku en lítið framboð sem enginn vaktar. Flutningskerfi í knýjandi uppbyggingarþörf sem erfitt er að fá heimildir til að mæta. Og ferli rammaáætlunar sem horfir ekki til hagkvæmnissjónarmiða og samfélagslegra áhrifa, eins og lögin kveða þó skýrt á um að þar beri að gera. Orkuöryggi er nauðsynleg grunnstoð hvers þjóðfélags. Hér á landi þrengir að því úr ýmsum áttum og við ræðum hugtakið orkuöryggi sjaldan eða aldrei eitt og sér á eigin forsendum. Því þarf að breyta“ sagði Helgi m.a.