Rannsóknasjóður HS Orku styrkir rannsóknarverkefni

Rannsóknasjóður HS Orku veitir styrki til afmarkaðra rannsóknarverkefna sem hafa skírskotun til starfsemi fyrirtækisins og/eða til sjálfbærniáherslna HS Orku. Sagt er frá því á vef HS orku að markmið sjóðsins sé að efla þekkingu innan fyrirtækisins og stuðla að framförum og nýsköpun í starfseminni. 

Næsta úthlutun fer fram vorið 2026. Opið er fyrir umsóknir frá 15. janúar til 15. febrúar 2026. 

Úthlutunarviðmið

Rannsóknasjóðurinn styður verkefni á efri stigum háskólanáms, þ.e. meistara- eða doktorsstigi, samstarfsverkefni við þekkingarstofnanir (s.s. háskóla, háskólasetur, náttúrufræðistofur og aðrar stofnanir) eða aðra aðila; einstaklinga, hópa, smærri fyrirtæki, sjálfseignarstofnanir eða félagasamtök. Verkefni geta ýmist verið að frumkvæði HS Orku eða utanaðkomandi aðila.

Fagráð sjóðsins metur umsóknir jafnt frá innlendum sem erlendum aðilum. Verkefnin geta snúið sérstaklega að íslenskum málefnum og aðstæðum, haft tengingu við staðbundna starfsemi HS Orku eða haft þekkingarfræðilegt gildi óháð landsvæði. Við val á verkefnum er einnig litið til þeirra heimsmarkmiða sem HS Orka hefur valið sér.

Viðfangsefni sem koma til greina geta t.d. tengst jarðvísindum, verkfræði, tæknifræði, vélfræði, rafiðnum, málmiðnum, endurnýjanlegri orkuframleiðslu, náttúrufræðum og líffræðilegri fjölbreytni, sjálfbærni og umhverfismálum (t.a.m. loftslagsmálum), jafnrétti og samfélagsmálum, kortagerð og kortlagningu. Tekið er fram að listinn er ekki tæmandi.

Styrkumsóknir sem koma almennt ekki til greina:

  • Sjóðurinn veitir ekki styrki vegna markaðsstarfs
  • Sjóðurinn veitir almennt ekki styrki fyrir námsgjöldum, rekstri eða ferðum. Rekstrar- eða ferðakostnaður getur þó eftir atvikum verið hluti af framkvæmd verkefna sem sjóðurinn styður.
  • Sjóðurinn veitir ekki styrki til verkefna sem falla betur að úthlutunarviðmiðum Samfélagssjóðs HS Orku, sjá hér.

Almennar fyrirspurnir berist rafrænt til rannsoknarsjodur(hja)hsorka.is.

Umsóknarhlekkur rannsóknasjóðsins er hér