10. desember 2025 ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í dag umfangsmikla stefnumótun og aðgerðir til að efla flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. „European Grids Package“ er yfirskrift þessara tillagna sem m.a. fela í sér breytingar á tilskipunum ESB. „Samtengd og samtvinnað orkukerfi er grundvöllur sterkrar og sjálfstæðrar Evrópu,“ er haft eftir Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB í fréttatilkynningu. Teresa Ribera, einn varaforseta framkvæmdastjórnarinnar segir markmiðið að allir hlutar Evrópu uppskeri ávinning af orkubyltingunni með ódýrari og hreinni orku, minna þurfi að treysta á innflutt jarðefnaeldsneyti, orkuöryggi aukist og sömuleiðis viðnám gegn verðsveiflum. Framkvæmdastjórnin gerir ráð fyrir að fjárfesta þurfi um 1.2 trilljónir Evra í flutnings- og dreifikerfi raforku á næstu fimmtán árum, stórefla þurfi flutning á rafmagni yfir landamæri og einnig byggja upp dreifiveitur. Í því skyni eru lagðar fram tillögur um hvernig ýta megi undir fjárfestingar ásamt því að efla áfallaþol og öryggi þessara innviða. ESB leggur líka mikla áherslu á að hraða leyfisveitingum vegna uppbyggingar flutnings- og dreifikerfisins og verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku. Markmiðið er að leyfisveitingaferlið taki almennt ekki lengri tíma en tvö ár og hámark þrjú ár í flóknari verkefnum. Þetta er áskorun sem er svo sannarlega fyrir hendi hér á landi og þannig ályktaði aðalfundur Samorku fyrr á þessu ári um nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, og stytta leyfisveitingaferla uppbyggingu orku- og veituinnviða. Framkvæmdastjórn ESB leggur til breytingar á gildandi tilskipunum m.a. um endurnýjanlega orku. Þessar löggjafartillögur fara nú fyrir Evrópuþingið og ráðherraráð Evrópusambandsins (Council). Jafnframt ætlar framkvæmdastjórnin að vinna náið með aðildarríkjum ESB og öðrum haghöfum til að hrinda í framkvæmd orkuverkefnum sem ná yfir landamæri. Þessar aðgerðir og stefnumótun eiga einnig að styrkja aukna samvinnu við ríki utan ESB, þar á meðal á Evrópska efnahagssvæðinu. Samorka mun fylgjast grannt með þessu máli enda hafa breytingar á löggjöf og reglum ESB áhrif á starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja þegar þær eru teknar upp í samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið (EES) og innleiddar í íslenska löggjöf. Fréttatilkynningu ESB um „European Grids Package“ og hlekkir á meðfylgjandi skjöl er að finna hér: Commission proposes upgrade of the EU’s energy infrastructure to lower bills and boost independence: ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku