24. nóvember 2025 Orkuskipti, áfallaþol og samkeppnishæfni í brenndidepli á orkuráðstefnu ESB og Noregs Orkuskipti með áfallaþol og samkeppnishæfni í brennidepli var yfirskrift sjöundu orkuráðstefnu Evrópusambandsins og Noregs sem fulltrúi Samorku sat í Brussel 21. nóvember s.l. Fulltrúar ESB og norskra stjórnvalda lögðu þar áherslu á mikilvægi samstarfs þessara aðila í orkumálum sem eina af megin forsendunum fyrir orkuöryggi Evrópu. Anders Eide, sendiherra Noregs gagnvart ESB bauð gesti velkomna en síðan tók til máls Dan Jørgensen orkumálastjóri ESB. Hann lagði áherslu á að Noregur væri mikilvægur samstarfsaðili ESB í orkumálum, m.a. stærsti seljandinn á gasi til aðildarríkja sambandsins, að ógleymdri olíu. Jørgensen ræddi líka um væntanlegar tillögur framkvæmdastjórnar ESB um uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis raforku – svokallaðan „EU Grid Package.“ Terje Aasland orkumálaráðherra Noregs sagði í sinni ræðu að orkuskiptin yrðu að eiga sér stað jafnt og þétt með nýsköpun og samvinnu að leiðarljósi. „Orka er velsæld – orka er öryggi“ sagði Aasland. Orkumálastjórinn og ráðherrann áttu einnig fund sama dag og ráðstefnan var haldin. Pablo Hevia-Koch frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA) beindi síðan sjónum að öld raforkunnar sem nú væri að renna upp. Hún myndi byggjast á því hversu hratt væri hægt að byggja upp flutningskerfi og tengingar milli landa. Í þrennum pallborðsumræðum var rætt um styrkingu áfallaþols í orkugeiranum, mikilvægi markaðslausna í viðskiptum með rafmagn og verkefni í kolefnisbindingu. Þar tóku þátt fulltrúar norskra orkufyrirtækja, alþjóðastofnana á borð við ESB og NATO en einnig fleiri sérfræðingar og fulltrúar hagsmunasamtaka. Samorka vinnur náið með Renewables Norway og öðrum norrænum samtökum í orkugeiranum á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel. Ráðstefnan var gott tækifæri til að fræðast um helstu áskoranir og tækifæri í samskiptum ESB og Noregs og hvaða máli þetta samstarf skiptir í alþjóða- og öryggismálum, m.a. fyrir Ísland. Hér er hægt að lesa meira um dagskrá ráðstefnunnar og viðfangsefni: 7th EU-Norway energy conference: Navigating the energy transition with resilience and competitiveness in focus – Energy: Orkuskipti, áfallaþol og samkeppnishæfni í brenndidepli á orkuráðstefnu ESB og Noregs