Öflugur ársfundur Nordenergi haldinn í Svíþjóð

Mikilvægi rafvæðingar í orkuskiptum með fjölbreyttum endurnýjanlegum orkugjöfum er meðal forgangsmála hjá Green Power Denmark sem tók við formennsku í Nordenergi-samstarfinu af Renewables Norway á ársfundi í Svíþjóð 10.-12. nóvember. Nordenergi er samstarfsvettvangur norrænna landssambanda í græna orkugeiranum og sóttu þeir Finnur Beck framkvæmdastjóri og Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs ársfundinn fyrir hönd Samorku.

Útbreiðsla endurnýjanlegra orkugjafa er um leið lykillinn að því að ná loftslagsmarkmiðum, styrkja samkeppnishæfni Evrópu og tryggja orkuöryggi álfunnar. Á Norrænu orkuskrifstofunni í Brussel eru aðildarsambönd Nordenergi síðan undir einu þaki, vinna að hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu og starfa með hagsmunasamtökunum í evrópska orkugeiranum. Norðurlöndin geta því talað með einni röddu, bæði í Brussel og á öðrum vettvangi.

Fulltrúar á ársfundinum heimsóttu fyrst höfuðstöðvar Göteborg Energi í Gautaborg en héldu síðan til bæjarins Varberg þar sem fundurinn fór fram. Orkufyrirtækið Varberg Energi leggur mikla áherslu á nýsköpun og hefur t.d. sett upp 14 MW rafhlöðugarð sem Nordenergi-hópurinn heimsótti. Loks kynntu fundarmenn sér starfsemi Ringhals-kjarnorkuversins sem er skammt frá Varberg og sænska orkufyrirtækið Vattenfall rekur.

Ársfundur Nordenergi verður næst haldinn í Finnlandi og árið 2027 verður Samorka síðan í gestgjafahlutverkinu.

Hér að neðan er einnig hlekkur til að lesa meira um rafhlöðugarð Varberg Energy.

https://www.varbergenergi.se/om-oss/var-verksamhet/natbatterier: Öflugur ársfundur Nordenergi haldinn í Svíþjóð