Fulltrúar íslenskra fráveitna á NORDIWA 2025

Dagana 23. til 25. september fór fram norræna fráveituráðstefnan, NORDIWA 2025, í Osló. Voru þar haldnar hátt í 50 mál- og verkefnastofur sem innihéldu yfir tvö hundruð erindi.

Erindin beindust mörg hver að fyrirhugaðri innleiðingu fráveitutilskipunar Evrópusambandsins og þeirra tæknilegu útfærslum sem þarf að leysa úr til að uppfylla skilyrði hennar. Við er búist að stíga þurfi stór skref í greiningu og mælingum á PFAS og öðrum örmegnunarefnum og taka upp nákvæmari hreinsunaraðgerðir þegar hún hefur verið innleidd til fulls. Erindi um spálíkön fyrir hinar ýmsu tegundir mengunar voru áberandi auk erinda um hönnun hreinsunarmannvirkja sem geta staðist kröfur fjórða stigs hreinsunar. Fyrir aðildalönd Evrópusambandsins hefst innleiðing hennar seinni hluta ársins 2027 og eru fráveituaðilar, ráðgjafar og verktakar nú á fullri ferð með að finna bestu mögulegu leiðir til að standast þessar auknu kröfur.  

Einnig voru mörg erindi um tækifæri til verðmætasköpunar út fráveitum, t.a.m. lífgas-, áburðar- og lífkolaframleiðsla.  

Á ráðstefnuna mætti tíu manna hópur frá aðildafélögum Samorku og var einuhugur í hópnum að ráðstefnunni lokinni að heimsóknin hefði verið afar gagnleg enda verkefnin framundan stór.