20. ágúst 2025 Umsögn Samorku: Orku- og veituinnviðir eru ómissandi Samorka telur að skýrt þurfi að koma fram í lögum um almannavarnir að raforka (framleiðsla, flutningur og dreifing), hitaveita, vatnsveita og fráveita séu ómissandi innviðir. Þetta er meðal helstu athugasemda í umsögn Samorku um drög að frumvarpi til nýrra laga um almannavarnir sem birt var í samráðsgátt. Dómsmálaráðherra hyggst leggja frumvarpið fram á haustþingi en það felur í sér heildarendurskoðun á núverandi lögum um almannavarnir. Fyrirhuguð lagasetning á að taka til „samhæfðra almannavarnaviðbragða til þess að takast á við afleiðingar ástands sem ógnar eða kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum,“ eins og segir í frumvarpsdrögunum. Samkvæmt þeim eru verulegar skyldur lagðar á ábyrgðaraðila ómissandi innviða, t.d. í fyrirbyggjandi aðgerðum, greiningu á áhættu og gerð viðbragðsáætlana. Samorka telur að fulltrúar orku- og veitufyrirtækja þurfi að eiga fasta aðild að samráðshópi ríkislögreglustjóri um almannavarnir, til viðbótar við forstjóra Landsnets. Lögin þurfi einnig að kveða skýrt á um að fullur trúnaður gildi um hverskyns viðkvæmar upplýsingar sem ábyrgðaraðilum ómissandi innviða er skylt að deila með stjórnvöldum, þ.á.m. ríkislögreglustjóra. Þá megi setja spurningamerki við að birta opinberlega viðbragðsáætlanir. Sömuleiðis þurfi að skýra það í lögum hver beri kostnað af því að leggja í umfangsmiklar framkvæmdir og aðrar aðgerðir í forvarnarskyni, til að bregðast við almannavarnarstigi og halda uppi ómissandi innviðum þegar áföll ríða yfir eða hætta steðjar að. Jafnframt þurfi að kveða skýrt á um ferli við ákvarðanatöku, t.d. samráð og samskipti hins opinbera við ábyrgðaraðila ómissandi innviða. Loks telur Samorka mikilvægt að rýna tilskipun Evrópusambandsins um áfallaþol ómissandi innviða sem taka þarf upp í íslenska löggjöf í gegnum samninginn um evrópska efnahagssvæðið. Meta þurfi hvaða áhrif innleiðing tilskipunarinnar kann að hafa á lög um almannavarnir. Hér er hægt að lesa umsögn Samorku í heild. Frumvarpsdrögin og aðrar umsagnir, m.a. frá Veitum, HS Orku, HS veitum og Landsneti þar sem ýmsar athugasemdir eru gerðar við frumvarpsdrögin, má lesa á Samráðsgátt: Samráðsgátt | Mál: S-114/2025