ESB styrkir til öryggisrannsókna – tækifæri fyrir orku- og veitufyrirtæki

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr Horizon Europe á sviði öryggisrannsókna (security research). Alls eru 250 milljónir evra í boði fyrir fjölbreytt verkefni sem miða að því að efla öryggi og viðnámsþrótt innan aðildarríkja og samstarfsþjóða. Umsóknarfrestur rennur út 12. nóvember 2025.

Meðal áhersluatriða styrkveitinganna eru:

  • Vernd mikilvægra innviða (infrastructure protection)
  • Netöryggi og stafrænt viðnám (cybersecurity)
  • Viðnámsþróttur gagnvart hamförum og loftslagsáföllum (disaster resilience)

Í ljósi aukinna áskorana tengdum netöryggi, veðurtengdum atvikum og vaxandi kröfum um samfellu í rekstri innviða, kunna þessi verkefni að opna tækifæri fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki. Þau gætu tekið þátt annaðhvort sem leiðandi aðilar eða í samstarfi við íslenska sérfræðinga eða evrópska samstarfsaðila.

Samkvæmt upplýsingum á vef RANNÍS geta íslenskir aðilar tekið þátt í Horizon Europe á jafnréttisgrundvelli við aðra aðildaraðila EES, og njóta einnig aðstoðar RANNÍS við gerð umsókna og samstarfsleit.

Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna á vef Framkvæmdastjórnar ESB:
EUR 250 million available for new projects on security research

Sömuleiðis veitir RANNÍS ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar:
Algengar spurningar um Horizon Europe á vef RANNÍS