3. júlí 2024 Verkefnið endalausa? Verkefnið endalausa? Öll þekkjum við orðfærið að ramma eitthvað inn. Ná skýrt og skilmerkilega utan um tiltekið viðfangsefni. Allt frá síðasta áratug síðustu aldar hefur þess verið freistað að ramma inn möguleika þjóðarinnar og heimildir til orkuvinnslu í gegnum svokallaða verndar- og orkunýtingaráætlun, betur þekkt sem rammaáætlun. Þrátt fyrir hartnær 30 ára sögu virðist verkefninu hvergi nærri lokið. Kannski sér aldrei fyrir endann á því. Það er áhugavert í ljósi markmiða stjórnvalda um að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna innlenda orku fyrir árið 2040. Langt er um liðið Á vef rammaáætlunar má finna forsögu hennar. Sérstakur starfshópur á vegum umhverfisráðuneytisins skilaði áliti í mars 1995 með tillögu um gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls. Þetta var um það leyti og internetnotkun breiddist út og vefurinn Amazon umbylti stafrænum viðskiptum. Í kjölfar umfjöllunar umhverfisþings árið 1996 var samþykkt að vinna framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun til aldamóta og samkvæmt henni átti að gera rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og ljúka gerð áætlunarinnar fyrir lok árs árið 2000. Vart þarf að taka fram að það tókst alls ekki. Sama ár setti Apple fyrsta iPodinn á markað. Verkefnið útvíkkað Hér er of langt mál að rekja allar raunir rammaáætlunar en allt frá aldamótum hefur lítið þokast í mörgum áföngum hennar. Aðferðafræðin hefur tekið ýmsum breytingum og hefur ekki verið eins á milli áfanga við mat á virkjunarkostum. Aðferðafræðin var gerð enn flóknari með nýjum lögum árið 2011, nokkrum árum eftir að fyrsti iPhone síminn kom fram. Frá því að lögin voru sett árið 2011 þá hefur ein virkjun verið byggð að undangenginni fullri meðferð rammaáætlunar. Síðan þá hefur gildissvið rammaáætlunar líka verið útvíkkað og tekur nú einnig til vindorkunýtingar. Hægt hefur gengið að fá tillögur að orkuvinnslu samþykktar að lokinni pólitískri meðferð á Alþingi. Virðist þar einu gilda þó greiningar fremstu sérfræðinga hjá flutningsfyrirtæki þjóðarinnar sýni váleg merki um afl- og orkujöfnuð í íslenska orkukerfinu. Jafnvel þó orkuvinnsluverkefni hljóti náð fyrir augum verkefnisstjórnar og Alþings geta í núverandi kerfi svo liðið rúm 10 ár þar til heimildir fást til að hefja framkvæmdir. Meðferð rammaáætlunar er ófyrirsjáanleg, kostnaðarsöm fyrir fyrirtæki og samfélagið og fullreynt virðist að hún sé einhver lykill í því að almenn sátt náist um orkuvinnslu. Finnum ferla sem þjóna markmiðum Sérstakur hópur á vegum umhverfis- orku og loftslagsráðherra vinnur nú að endurskoðun rammaáætlunarkerfisins svo sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála. Ljóst er að bútasaumur á núverandi kerfi dugir ekki ef Íslandi á að lánast að fara í orkuskipti og viðhalda samkeppnishæfni landsins. Nýtt kerfi þarf að taka mið af breyttum forsendum og markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi. Þau sem halda fram nauðsyn eða mikilvægi þessarar miklu opinberu áætlunargerðar verða að færa rök fyrir því hvers vegna Ísland, eitt ríkja, geti ekki komið upp grænni orkuvinnslu með umhverfismati og skipulagsferli líkt og þau ríki sem við jafnan berum okkur saman við. Meira að segja Norðmenn, hvaðan hugmyndin um rammaáætlun var víst komin, luku sinni rammaáætlun 2016 sem tók einvörðungu til vatnaflsnýtingar. Hið nýja stjórnsýslukerfi þarf að vera skilvirkt og hagkvæmt, einfalt og almennt skýrt fyrirskrifað í lögum. Mikilvægt er að sveitarfélög sem vilja verði gert kleift að sýna frumkvæði og ábyrgð í loftslagsmálum með skipulagsvaldi sínu. Hið nýja kerfi þarf að fela í sér vandað umhverfismat, standast viðmið um góða stjórnsýslu, brjóta niður aðgangshindranir og leggja grunn að árangri i orkuskiptum með tilheyrandi þjóðhagslegum ávinningi. Þannig verður orkuskiptum náð örugglega og samkeppnishæfni landsins tryggð fyrir framtak fólks og fyrirtækja og tilstuðlan framsýnna stjórnmálamanna. Grein eftir Finn Beck framkvæmdastjóra SamorkuGreinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum 3. júlí 2024.