483 milljarða fjárfestingar til ársins 2030

Orku- og veitufyrirtæki landsins munu fjárfesta fyrir 483 milljarða króna á næstu fimm árum. Þetta kemur fram í könnun sem Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, gerðu meðal aðildarfyrirtækja sinna og kynnt var á ársfundi samtakanna þann 19. mars.

483 milljarðar jafngilda tvöföldum kostnaði nýs Landsspítala eða tíföldum kostnaði Fjarðarheiðarganga.

Stærstur hluti fjárfestinganna fer í framleiðslu, flutning og dreifingu raforku eða 300 milljarðar króna. Fjárfestingar hitaveitna nema 93 milljörðum, fráveitna 49 milljörðum og vatnsveitna 40 milljörðum. Sameiginlega eiga þær að tryggja nauðsynlega uppbyggingu, viðhald og framþróun innviða í samræmi við orkuskipti, fólksfjölgun og aukna eftirspurn í samfélaginu eftir öruggri og sjálfbærri þjónustu.

„Ljóst er að horft er til orku- og veitufyrirtækja til að leika lykilhlutverk í baráttunni gegn loftslagsvánni og í að tryggja orkusjálfstæði Íslands. Þessar áætlanir sýna hversu stór verkefni eru framundan og hversu mikilvæg fjárfesting í innviðum er fyrir framtíðina,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

Sólrún Kristjánsdóttir, sem kjörin var nýr stjórnarformaður Samorku í dag, tekur undir og segir:
„Þessar fjárfestingar eru ekki aðeins nauðsynlegar til að tryggja að innviðir okkar haldist í takt við þróun samfélagsins heldur felast í þeim stórtæk efnahagsleg tækifæri. Sterkir og traustir orku- og veituinnviðir eru grundvöllur atvinnulífs, lífsgæða og umhverfisverndar.“