2,3 milljarðar til landeigenda – milljarður í umhverfisverkefni

Umhverfismálin skipa stóran sess í rekstri orku- og veitufyrirtækja, hvort sem um er að ræða virkjanir vegna nýtingar endurnýjanlegra orkulinda eða framkvæmdir vegna vatnsveitna og fráveitna. Áhersla er jafnan lögð á að umgangast landið með virðingu, að öllu raski sé haldið í lágmarki, frágangur í verklok sé til fyrirmyndar og raunar að tekið sé tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni. Ennfremur hafa mörg orku- og veitufyrirtæki lagt áherslu á að bæta innviði ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum. Loks hafa fyrirtækin oft lagst í hreinsunarátak á einstökum svæðum áður en hafist hefur verið handa við framkvæmdir.

Yfir milljarður til sérstakra umhverfisverkefna
Kostnaður vegna slíkra verkefna er ekki alltaf sundurgreinanlegur og umframkostnað vegna almennra áherslna á umhverfismál – svo sem að vinnuflokkar fari helst fótgangandi um viðkvæm svæði – er útilokað að taka saman. Að beiðni Samorku hafa orku- og veitufyrirtæki hins vegar tekið saman hversu miklum fjármunum þau hafa verið að verja með beinum hætti til sérstakra verkefna á sviði umhverfismála. Niðurstaðan er sú að á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki á Íslandi samtals um 1.050 milljónir króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna.

2,3 milljarðar til landeigenda
Framkvæmdir við veitur og virkjanir hafa ávallt í för með sér ákveðin landnot. Á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki samtals um 2,3 milljarða króna vegna landnota til landeigenda og veiðirétthafa. Þess eru þó fjölmörg dæmi að framkvæmdir hafi í raun aukið verðmæti aðliggjandi landsvæða, til dæmis með bættu aðgengi.

Líkt og áður hefur komið fram greiddu fyrirtækin á þessum sama tíma yfir 500 milljónir króna í styrki til annarra aðila vegna rannsókna og vísinda sem meðal annars hafa tengst umhverfismálum.