„Brýnt að nýta tímann vel til að undirbúa framkvæmdir“

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, að mikilvægt sé að nýta þetta óvissuástand sem nú ríki vel til að undirbúa framkvæmdir. Margir horfi nú til framkvæmda við virkjanir og stóriðju og nokkur slík verkefni séu þegar í undirbúningi. Gústaf fjallar í viðtalinu um mikilvægi þess að stofnanir og sveitarfélög vinni með fyrirtækjunum að undirbúningi slíkra verkefna, en tekur fram að orkufyrirtækin séu ekki að biðja um neina afslætti af gildandi lögum og reglum á sviði umhverfismála. Hins vegar segir hann lagaumgjörð slíkra framkvæmda mjög flókna og að mikilvægt sé að einfalda hana, þótt það sé ekki verkefnið nú til skemmri tíma litið.

Viðtal Viðskiptablaðsins við Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku:

„Þessa dagana fer mestöll orka íslensks atvinnulífs og stjórnvalda í eins konar slökkvistarf þar sem reynt er að bregðast við fjármálakreppunni, slökkva elda, halda viðskiptum við útlönd í sem eðlilegustum farvegi og bjarga verðmætum. Á sama tíma er hins vegar hafin umræða um það uppbyggingarstarf sem fram undan er í íslensku atvinnulífi og þar horfa margir til nýtingar á okkar ríku endurnýjanlegu orkuauðlindum. Jafnvel er talað um að hraða verði framkvæmdum við virkjanir og stóriðju,“ sagði Gústaf Adolf Skúlason, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í samtali við Viðskiptablaðið en hann telur að stofnanir ríkisins verði að breyta vinnubrögðum sínum og hætta að afgreiða mál eins og ekkert liggi á. Hann tekur þó fram að ekki sé  verið að biðja um neinn afslátt nú á gildandi lögum og reglum, einungis að framkvæmd regluumhverfisins sé skilvirk og að unnið sé með atvinnulífinu.

„Ljóst er að möguleikar okkar á orkusviðinu eru mjög miklir og sjaldan ef nokkurn tíma hefur verið jafn mikil þörf á erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Fjöldi verkefna er þegar kominn talsvert áleiðis í undirbúningi sem kunnugt er, verkefni sem geta verið forsenda fyrir erlendri fjárfestingu upp á hundruð milljarða króna í íslensku atvinnulífi og auknum útflutningstekjum í kjölfar uppbyggingarinnar. Sagan sýnir að erlend  fjárfesting hefur að langstærstum hluta einskorðast við orkufrekan iðnað. Tölur nokkurra síðustu ára sýna reyndar meiri erlenda fjárfestingu hér tengda fjármálafyrirtækjum en stóriðju, en þar er mikið til um að ræða fjárfestingar tengdar eignarhaldsfélögum í íslenskri eigu, skráðum erlendis, sem því miður eru afar misjafnlega stödd í dag.“

Gústaf benti á að nýleg dæmi væru um stórar lántökur íslenskra orkufyrirtækja erlendis á mjög góðum kjörum. “Þó má gera ráð fyrir að erfitt gæti orðið að fjármagna stórar framkvæmdir á viðunandi kjörum allra næstu vikur, á meðan rykið er að setjast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og staðan hér að skýrast. Hins vegar er brýnt að nýta þennan tíma vel til að undirbúa framkvæmdir, ganga frá leyfisveitingum, skipulagsmálum og þess háttar.”

Flókið lagaumhverfi
Að sögn Gústafs getur undirbúningur að byggingu virkjana og flutningsvirkja fyrir raforku tekið mjög langan tíma. Regluumhverfið er enda afar flókið og oft gengur afgreiðsla hægt innan þess flókna ramma. „Sem dæmi um þetta flókna umhverfi má nefna að Hellisheiðarvirkjun var yfir tuttugu sinnum á borði Umhverfisstofnunar, í einu eða öðru samhengi, á undirbúnings- og framkvæmdatíma. Orkufyrirtækin hafa ekki verið að biðja um neinn afslátt af sjálfsögðum kröfum um tillit til umhverfisins og ein ástæða þess langa tíma sem getur tekið að undirbúa virkjanaframkvæmdir er einmitt þær ráðstafanir sem oft er verið að grípa til á frumstigum vegna umhverfismála. Hins vegar teljum við að það hljóti að vera svigrúm til að einfalda eitthvað þetta ferli og stytta umsagnarfresti. Það getur hreinlega ekki verið nauðsynlegt að ein framkvæmd, þótt hún sé stór, þurfi að vera yfir tuttugu sinnum á borði einnar og sömu stofnunarinnar.“

Gústaf sagði að einföldun á regluverkinu væri þess vegna mjög mikilvægt verkefni, en til skemmri tíma er mikilvægast að sveitarfélög og stofnanir ríkisins vinni með atvinnulífinu í þessum efnum. „Fyrirtækin upplifa það oft svo að sumar stofnanir taki afar langan tíma í afgreiðslu mála, algerlega að nauðsynjalausu. Erindum er jafnvel ekki svarað. Allar tafir af slíkum sökum geta kostað mikla peninga. Þá getur það skipt miklu máli og sparað bæði fé og fyrirhöfn ef sveitarfélög sýna sveigjanleika og samstarfsvilja á þessu sviði. Verkefnið fram undan er þess vegna að hraða undirbúningi framkvæmda og þar skiptir miklu máli að stofnanir ríkis og sveitarfélög vinni með fyrirtækjunum.“