13. mars 2008 Verðmætasköpun í varnarstöðu Álitsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar í 24 stundum: Sérkennileg umræða fer nú enn á ný fram um álver og ágæti þeirra. Öflug fyrirtæki þreifa fyrir sér með miklar fjárfestingar sem myndu skapa hér mikil verðmæti og mikinn fjölda góðra starfa. Einhverra hluta vegna er sveitarstjórnarfólki og fleirum sem taka jákvætt í slík erindi ítrekað stillt upp við vegg í viðtölum og opinberri umræðu. Þetta fólk er látið færa rök fyrir að heimila eigi hér slíkar fjárfestingar, með tölum um atvinnuleysi, lág meðallaun á viðkomandi svæðum eða fólksfækkun. Öðrum atvinnugreinum er síðan iðulega stillt upp sem betri valkostum, þótt mismikið fari þar fyrir fjárfestum. Sannleikurinn er sá að ólíkar atvinnugreinar þrífast best hver með annarri. Tökum stutta varnaræfingu. Regluleg mánaðarlaun verkafólks og iðnaðarmanna í álverum eru mun hærri en meðaltalið á landsvísu, meðalstarfsaldur með því lengsta sem gerist, veltuhraði starsfsfólks með því lægsta sem þekkist og álverin hafa verið í fararbroddi í öryggis- og aðbúnaðarmálum. Er þetta haft hér úr erindi framkvæmdastjóra ASÍ og verður seint talin lýsing á slæmum vinnustöðum. Starfsemi álvera byggir á mikilli sjálfvirkni og hugbúnaðargerð. Hlutfall háskólamenntaðra er talsvert hærra en að meðaltali í atvinnulífinu og fjöldi iðnaðarmanna mjög mikill. Álverin hafa verið í fararbroddi í starfsmenntamálum. Fjöldi fyrirtækja eru í raun skilgetin afkvæmi áliðnaðarins, meðal annars hugbúnaðarfyrirtæki og verkfræðistofur. Hljómar vel, en hér er samt alls ekkert verið að mæla með álverum umfram aðra atvinnustarfsemi. Öll atvinnustarfsemi á einfaldlega að njóta sannmælis og lúta þeim lögum og reglum sem í gildi eru hverju sinni. Mörg þúsund Íslendingar hafa sitt lifibrauð með beinum og óbeinum hætti af starfsemi álvera og þúsundir binda vonir við hugmyndir um þess háttar uppbyggingu og verðmætasköpun í sínu héraði. Þetta fólk er nákvæmlega jafn merkilegt og það fólk sem starfar í öðrum atvinnugreinum og á ekki sífellt að þurfa að þola að lítið sé gert úr því í opinberri umræðu.