10. september 2025 Umhverfis-, orku- og loftslagsmál fyrirferðarmikil í þingmálaskrá Mál tengd umhverfis-, orku- og loftslagsmálum verða fyrirferðarmikil á komandi þingvetri. Ráðherra málaflokksins hyggst leggja fram 16 frumvörp og 4 þingsályktanir, næst flest mál allra ráðherra. Mörg þessara mála hafa verið lögð fram áður eða kynnt í samráðsgátt. Búast má við einhverjum breytingum á þessum málum frá því þau voru lögð fram á fyrra þingi, en hér má sjá yfirlit yfir nokkur þessara mála: REMIT; frumvarp til breytinga á raforkulögum sem lýtur að hátternisreglum á raforkumarkaði, banni við markaðsmisnotkun og skilgreiningu innherjaupplýsinga svo fátt eitt sé nefnt. Sjá fyrra frumvarp hér. Einföldunarfrumvarp, frumvarp til breytinga á ýmsum lögum til að einfalda stjórnsýsluferla orkumála og stíga skref í átt að afgreiðslu leyfa á einum stað. Sjá fyrra frumvarp hér Ramminn einfaldaður og skilvirkni bætt, sjá fyrra frumvarp hér Stefna um öflun raforku, lagabreyting á raforkulögum og lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun um að leggja eigi fram þingsályktun um stefnu um öflun raforku til næstu 10 ára og taka eigi mið af henni í rammaáætlun, sjá frumvarp í samráðsgátt hér Lög um lofslagsmál, ný heildarlög um skipulag og stjórnsýslu loftslagsmála, sjá frumvarp í samráðsgátt hér Þá boðar ráðherra einnig ný mál og má þar helst nefna: Vindorka, frumvarp til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun þar sem markaður verður rammi um hagnýtingu vindorku. Verkefni og sjálfstæði Raforkueftirlitsins Lög um stjórn vatnamála, skýra á ákvæði laganna m.a. málsmeðferðarreglur um heimild til breytinga á vatnshloti. Ráðherra umhverfis-, orku og loftslagsmála hyggst einnig leggja fram nokkrar þingsályktunartillögur og snúa flestar þeirra að einstökum áföngum rammaáætlunar, en ráðherra hefur boðað eftirfarandi breytingar frá fyrirliggjandi tillögum verkefnisstjórnar: 3. áfangi, Kjalalda og Héraðsvötn fari í bið en ekki í verndarflokk 5. áfangi, Hamarsvirkjun fari í bið en ekki í verndarflokk 5. áfangi, Garpsdalur – vindorka, fari í nýtingu en ekki bið. 9 önnur vindorkuverkefni eru í bið samkvæmt tillögunum. Þá eru ýmis mál sem tengjast orku- og veitumálum sem lúta stjórn annarra ráðuneyta, má þar t.d. nefna: Sveitastjórnarlög, innviðaráðherra mun leggja fram frumvarp um yfirgripsmiklar breytingar á sveitastjórnarlögum sem snerta m.a. aðildarfyrirtæki Samorku í tengslum við atvinnuþátttöku sveitarfélaga. Fasteignamat orkumannvirkja, innviðaráðherra stefnir á að leggja fram í febrúar frumvarp sem miðar að því að stærri hluti tekna af orkumannvirkjum renni til nærsamfélags. Raflínunefnd, frumvarp til breytinga á skipulagslögum frá félags- og húsnæðismálaráðherra. Samorka mun fylgjast grannt með framgangi allra þessara mála og eiga hér eftir sem hingað til virkt samtal við stjórnvöld um nauðsynlega uppbyggingu í orku- og veitumálum.