3. mars 2017 87% ferðamanna tók ekki eftir Blönduvirkjun Mikilvægt er að nýjar byggingar og önnur mannvirki utan þéttbýlis hér á landi taki mið af verndun náttúru og falli vel að landslaginu á hverjum stað. Þetta er á meðal ályktana sem draga má af svörum ferðamanna sem birt eru í nýrri skýrslu Háskóla Íslands og unnin var fyrir Landsvirkjun. Blöndulón Niðurstaða könnunarinnar, sem var gerð á meðal ferðamanna í nágrenni Blönduvirkjunar síðasta sumar, sýnir að langflestir ferðamenn við Blönduvirkjun eru ánægðir með dvöl sína á svæðinu en aðeins 8% eru óánægð. Meirihluta ferðamanna finnst svæðið náttúrulegt og telur ósnortin víðerni vera hluta af aðdráttarafli svæðisins, þrátt fyrir að þar megi sjá virkjunarmannvirki á borð við lón, stíflur, veituskurði, vegi og raflínur. Meðal ferðamanna voru flestir Þjóðverjar eða 35%, Frakkar um 11% og Íslendingar rúm 9%. Könnunin leiddi m.a. í ljós að 87% sögðust ekki hafa tekið eftir virkjuninni og tengdum mannvirkjum og meirihluti sagði tilvist virkjunarinnar ekki hafa áhrif á áhuga sinn á því að ferðast um svæðið. Í skýrslunni segir að í ljósi þess að virkjunarmannvirkin á Blöndusvæðinu trufli upplifun ferðamanna lítið megi draga þá ályktun að hönnun þeirra sé góð og þau falli vel að landslaginu. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, er aðalhöfundur skýrslunnar. Markmiðið með rannsókninni var að kanna áhrifin af mannvirkjum á upplifun ferðamanna af náttúru landsins. Ákveðið var að skoða dæmi um virkjun í rekstri, bæði lón og stöðvarhús, sem er í nágrenni við fjölsótta ferðamannaleið yfir hálendið. Meðal þess sem var kannað var hvort munur væri á viðhorfi ferðamanna til svæða þar sem þegar væri búið að reisa virkjun og á svæðum þar sem uppi eru hugmyndir um að reisa virkjun. Niðurstöður könnunarinnar voru bornar saman við niðurstöður sambærilegra kannana sem gerðar voru sumarið 2015 á sjö svæðum á landinu í tengslum við þriðja áfanga rammaáætlunar. Í ljós kom að um 92% ferðamannanna telja ósnortið víðerni vera hluta af aðdráttarafli Blöndusvæðisins og er þar um að ræða litlu lægra hlutfall en á þeim stöðum þar sem ekki hefur verið virkjað, en þar var hlutfallið á bilinu 93-98%. Nálgast má skýrsluna í heild sinni á vef Landsvirkjunar.