1. febrúar 2021 Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á ársfundi samtakanna 10. mars. Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Á ársfundi Samorku verður fjallað um þessa grósku í fortíð, nútíð og framtíð. Samorka ætlar að verðlauna framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki á ársfundinum. Við leitum að nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á: Tæknilausnum fyrir orku- og veitugeirann eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa. Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 24. febrúar. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.