11. júlí 2025 20 orkugerðir teknar upp í EES samninginn Alls voru 20 orkugerðir teknar upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brussel í dag, 11. júlí. Hann var fyrsti fundurinn undir formennsku Íslands, bæði í Fastanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og í sameiginlegu EES-nefndinni næstu sex mánuði. Sú nefnd er helsti samstarfsvettvangur EES-EFTA-ríkjanna Íslands, Noregs og Lichtenstein og Evrópusambandsins, enda er hlutverk nefndarinnar að tryggja virka framkvæmd EES-samningsins. Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands í Brussel og nýr formaður lagði sérstaka áherslu á að af þeim 55 gerðum sem teknar voru upp í EES-samninginn á fundinum voru 20 orkugerðir. Þeirra á meðal eru tilskipanir ESB um orkunýtni, endurnýjanlega orkugjafa og orkunýtni bygginga. Þetta eru yfirgripsmiklar tilskipanir og/eða breytingar á fyrri tilskipunum og upptaka þeirra í samninginn hefur verið lengi í vinnslu í samráðsferli EFTA- EES ríkjanna og Evrópusambandsins. Þær verða nú innleiddar í íslenska löggjöf og hafa því áhrif á starfsumhverfi orkufyrirtækja hér á landi. Kristján Andri þakkaði EES-EFTA ríkjunum og ESB fyrir gott samstarf og fyrir að leggjast á eitt í að hrinda í framkvæmd þessari jákvæðu þróun á sviði orkumála, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá EFTA. Stuðningur við Omnibus-einföldunartillögur ESB EES-EFTA ríkin kynntu einnig sameiginlegt álit sitt á svokölluðum Omnibus-einföldunarpakka ESB. Í álitinu lýsa ríkin stuðningi við þær tillögur sem snúast um að einfalda reglur og draga úr óþarfa stjórnsýslubyrði, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. „Þó að við styðjum almennt OMNIBUS-einföldunartillögurnar sem lagðar hafa verið fram hingað til, viljum við einnig undirstrika mikilvægi þess að tryggt verði að þær grafi ekki undan lykilmarkmiðum sem tengjast loftslagsmálum, umhverfismálum og félagslegum réttindum,“ er haft eftir Kristjáni Andra Stefánssyni sendiherra í fréttatilkynningu EFTA. Á fundi Fastanefndar EFTA í gær, 10. júlí kynnti Ísland einnig formennskuáætlun sína þar sem lögð er áhersla á öryggi, samkeppnishæfni og þátttöku EES-EFTA ríkjanna í áætlunum Evrópusambandsins. Sjá nánar frétt á heimasíðu EFTA um fundinn: EEA Joint Committee incorporates important energy files | European Free Trade Association
11. júlí 2025 ESB styrkir til öryggisrannsókna – tækifæri fyrir orku- og veitufyrirtæki Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr Horizon Europe á sviði öryggisrannsókna (security research). Alls eru 250 milljónir evra í boði fyrir fjölbreytt verkefni sem miða að því að efla öryggi og viðnámsþrótt innan aðildarríkja og samstarfsþjóða. Umsóknarfrestur rennur út 12. nóvember 2025. Meðal áhersluatriða styrkveitinganna eru: Vernd mikilvægra innviða (infrastructure protection) Netöryggi og stafrænt viðnám (cybersecurity) Viðnámsþróttur gagnvart hamförum og loftslagsáföllum (disaster resilience) Í ljósi aukinna áskorana tengdum netöryggi, veðurtengdum atvikum og vaxandi kröfum um samfellu í rekstri innviða, kunna þessi verkefni að opna tækifæri fyrir íslensk orku- og veitufyrirtæki. Þau gætu tekið þátt annaðhvort sem leiðandi aðilar eða í samstarfi við íslenska sérfræðinga eða evrópska samstarfsaðila. Samkvæmt upplýsingum á vef RANNÍS geta íslenskir aðilar tekið þátt í Horizon Europe á jafnréttisgrundvelli við aðra aðildaraðila EES, og njóta einnig aðstoðar RANNÍS við gerð umsókna og samstarfsleit. Nánari upplýsingar um úthlutunina má finna á vef Framkvæmdastjórnar ESB:EUR 250 million available for new projects on security research Sömuleiðis veitir RANNÍS ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar:Algengar spurningar um Horizon Europe á vef RANNÍS