9. febrúar 2009 Stærsti þátturinn í auknu heilbrigði og bættum lífsgæðum þjóðarinnar Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri hefur að beiðni Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja, unnið skýrslu um heilsufarsáhrif heitavatnsnotkunar á Íslandi. Skýrslugerðin tengist 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem fagnað var árið 2008. Skýrsluhöfundar komast meðal annars að þeirri niðurstöðu að uppbygging hitaveitna á Íslandi á síðustu öld sé án efa sá atburður Íslandssögunnar sem stuðlað hafi hvað mest að auknu heilbrigði og lífsgæðum þjóðarinnar. Fjallað er um hreinna andrúmsloft, betur hituð hýbýli, sundlaugamenningu, heilsuböð, bættan þrifnað, lækningamátt og forvarnagildi heitra baða og margt fleira. Fram kemur að árleg heildarlosun CO2 á Íslandi er um 45% lægri en ef kynt væri með olíu. Hér á eftir er gripið niður í texta skýrslunnar: Bætt aðstaða til almenns þrifnaðar Flest samfélög eiga það sammerkt að vilja efla heilbrigði þegna sinna þar sem heilbrigði er jafnan talið til æðstu gæða. Frá fornu fari hefur jarðhiti verið notaður á Íslandi til að efla heilbrigði landsmanna eins og fram kemur í fornsögum. Með tilkomu hitaveitna og ótakmarkaðs og ódýrs heits rennandi vatns breyttist aðstaða til almenns þrifnaðar verulega og segja má að lífshættir Íslendinga hafi trauðla breyst meira við aðra einstaka viðburði. Heilnæmara andrúmsloft en með olíu- og kolakyndingu Kyndingu með olíu, kolum og gasi fylgir alla jafna verulegur útblástur ýmissa gastegunda og jafnframt fíngert ryk og sót sem valdið geta margháttuðum sjúkdómum. Fullyrða má að hitaveituvæðing hefur aukið loftgæði til mikilla muna og ferskara andrúmsloft er ótvíræð lífsgæði og hefur bein áhrif á heilbrigði fólks. Um 90% íslensku þjóðarinnar búa nú við jarðvarmahitaveitur og eru áhrifin á heilbrigði og umhverfi veruleg. Árleg heildarlosun CO2 á Íslandi er um 45 % lægri en ef kynt væri með olíu. Með tilkomu hitaveitna hættir þrifnaður að vera lúxus forréttindahópa og verður þess í stað lífsgæði hins almenna borgara. Um 160 sundlaugar Sundlaugamenningin sem þróast hefur á Íslandi er einstök og hvergi í heiminum eru upphitaðar útisundlaugar jafnalgengar og óþekkt að almenningssundlaugar séu reknar við eins lágt útihitastig og hér er. Um 160 sundlaugar eru í rekstri hér á landi og langflestar hitaðar með jarðhita. Það tilsvarar um einni sundlaug á hverja 2000 íbúa og lætur nærri að hver landsmaður fari um 15 sinnum í sund á ári. Hitaveituvatn á Íslandi hefur mjög breytilega efnasamsetningu og flokkast sumt undir heilsuvatn samkvæmt slíkum stöðlum og er sambærilegt við vatn í þekktum erlendum heilsuhælum. Heit böð gegn sjúkdómum og streitu Heit böð eru notuð með góðum árangri í meðferð ýmissa sjúkdóma s.s. giktarsjúkdóma, húðsjúkdóma og til að lina verki. Heit böð af hæfilegu hitastigi hafa jákvæð áhrif á ósjálfráða taugakerfið, innkirtlakerfið og ónæmiskerfið og leiða til aukins jafnvægis, draga úr meinafræðilegri starfsemi, auka eigin lækningamátt líkamans og styrkja hann gegn innri og ytri áreiti. Mild hreyfing, eins og sund, í 30 mínútur á dag styrkir þar að auki ónæmiskerfið og minnkar líkurnar á ýmsum sýkingum. Þá getur sundferð ásamt hæfilegri dvöl í heitum potti aukið vellíðan og jákvæðar tilfinningar með tilheyrandi jákvæðri virkni á ónæmiskerfið. Heitt vatn minnkar stirðleika sem er eitt af þeim vandamálum sem fólk með gigt glímir við. Við hreyfingu í heitu vatni liðkast fólk og hreyfigetan eykst. Það leiðir svo til aukins styrks, betra jafnvægis, aukins úthalds og betri þyngdarstjórnunar. Mikilvægt hlutverk heita vatnsins varðandi heilbrigði er þó ekki síst fólgið í því að minnka streitu sem er ein öflugasta forvörn gegn sjúkdómum. Höfundar skýrslunnar um heitt vatn og heilbrigði eru Hrefna Kristmannsdóttir og Sigríður Halldórsdóttir, prófessorar við Háskólann á Akureyri. Skýrsluna Heitt vatn og heilbrigði má nálgast hér, á pdf-formi.