17. október 2013 Samráð og lög um náttúruvernd Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar: Samráð og lög um náttúruvernd Mikið hefur verið rætt og ritað um allt hið mikla samráð sem viðhaft hafi verið við gerð lagafrumvarps um náttúruvernd á síðasta kjörtímabili. Frumvarpið varð að lögum en gildistökunni var frestað og nú hefur verið boðað að lagt verði til að lögin verði afturkölluð og núgildandi lög, frá árinu 1999, gildi þannig áfram. Samráð er hins vegar teygjanlegt hugtak. Eitt er að gefa aðilum færi á að setja fram sjónarmið, annað er að tekið sé tillit til þeirra sjónarmiða. Þröngur hópur höfunda Mikil vinna var lögð í gerð frumvarpsins. Meðal annars var unnin svokölluð hvítbók um náttúruvernd í því sambandi, tæpar 500 blaðsíður að lengd. Hvítbókina vann hins vegar afar þröngur hópur fólks. Starfsfólk umhverfisráðuneytisins og stofnana þess, háskólafólk sem mikið hefur unnið fyrir ráðuneytið og fulltrúi frjálsra félagasamtaka á sviði náttúruverndar. Enginn fulltrúi atvinnulífs, sveitarfélaga, útivistarfólks og þannig mætti áfram telja. Þetta er ekki uppskriftin að víðtækri sátt um þennan málaflokk. Lítið gert með athugasemdir Hvítbókin fór í umsagnarferli en óljóst er hvað gert var við umsagnirnar því hún kom aldrei út aftur í breyttu formi. Síðar gaf ráðuneytið út drög að frumvarpi til umsagnar, sem bar öll einkenni hvítbókarinnar hvað sem umsögnum um hana leið. Aftur stóð undirritaður að gerð umsagnar en ekki var að sjá að tekið hefði verið tillit til efnisatriða hennar þegar frumvarpið var síðar lagt fram á Alþingi. Enn hófst þá umsagnarferli en nú á vegum Alþingis. Frumvarpið tók síðan litlum breytingum í meðförum þingsins. Hér verða ekki raktar þær fjölmörgu og alvarlegu athugasemdir sem Samorka, Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, samtök útivistarfólks og fjöldinn allur af öðrum aðilum gerði við þetta frumvarp. Hér skal það hins vegar áréttað að hið meinta víðtæka samráð sem sagt er hafa verið viðhaft einkenndist allt þetta langa ferli af því sama: Lítið sem ekkert tillit var tekið til ítrekaðra og alvarlegra athugasemda þessara fjölmörgu aðila.