11. mars 2019 Orkustefna mikilvæg fyrir alla Orkustefna í mótun var umfjöllunarefni ársfundar Samorku sem haldinn var miðvikudaginn 6. mars á Grand hótel í Reykjavík. Myndband Samorku um þær spurningar sem orkustefna þarf að taka á Guðrún Sævarsdóttir, formaður starfshóps stjórnvalda um mótun orkustefnu fyrir Ísland, Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku og Toril Johanne Svaan, deildarstjóri í norska orkumálaráðuneytinu, fluttu erindi og fjölluðu meðal annars um þeirra hluta sem orkustefnu er ætlað að taka mið af, hvaða spurningum orkustefna þarf að svara og reynslu Noregs af mótun sinnar orkustefnu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, ávarpaði fundargesti sem og Helgi Jóhannesson, formaður stjórnar Samorku. Guðrún Sævarsdóttir sagði frá vinnu starfshóps um mótun orkustefnu og hvert upplegg hans væri frá stjórnvöldum. Í erindi Guðrúnar kom meðal annars fram að orkustefnu væri meðal annars uppálagt að styðja við orkuskipti í samgöngum og önnur loftslagsmarkmið Íslands. Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, ræddi um mikilvægi þess að áherslur orkustefnu væru skýrar og þjóðinni kunnar. Nefndi hann meðal annars orkuöryggi þjóðarinnar, samkeppnishæfni og loftslagsmál sem orkustefna þyrfti að taka á og tryggja þyrfti samfélaginu öllu ávinninginn af orku- og auðlindanýtingu. „Markmið orkufyrirtækjanna er ekki að virkja sem allra mest, heldur að uppfylla þarfir þjóðarinnar“ sagði Páll meðal annars í erindi sínu. Toril Svaan deildi reynslu Norðmanna af mótun orkustefnu, hvaða þátta þeir hafi litið til við gerð hennar og helstu áherslna. Toril Svaan sagði frá reynslu Norðmanna við mótun orkustefnu þar í landi Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún, ráðherra, meðal annars lengi hafa verið kallað eftir mótun heildstæðrar orkustefnu og gerð hennar væri líklega það mikilvægasta sem við stæðum frammi fyrir á sviði orkumála og auðlindanýtingar almennt. Ávarp Þórdísar Kolbrúnar, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar Helgi Jóhannesson, formaður stjórnar Samorku sagði í opnunarávarpi að orkustefna yrði að vera leiðarljós inn í framtíðina. Húsfyllir var á fundinum, enda um mikilvægt umræðuefni að ræða þar sem orkustefna verður leiðarljós í orkumálum landsins inn í framtíðina. Hér má sjá myndir frá fundinum.